131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heimasala afurða bænda.

636. mál
[15:13]

Ísólfur Gylfi Pálmason (F):

Herra forseti. Ég vil þakka svarið og fyrirspurnina en hér er um mjög spennandi mál að ræða. Ég hvet hæstv. landbúnaðarráðherra til dáða í þessum efnum og að hann fylgi málinu eftir. Ég finn og skynja að það er framsóknarhugur í ráðherranum hvað þetta varðar eins og á svo mörgum öðrum sviðum. Við vitum að fólk hefur mikinn áhuga á því að vita uppruna matar. Garðyrkjubændur merkja t.d. vöru sína búum sínum í dag, þeir merkja vöru sína íslenska fánanum þannig að við vitum að þegar við kaupum grænmeti erum við að kaupa íslenskt grænmeti. Nú stendur til t.d. á Flúðum að halda sérstakan matvæladag þar sem íslenskt grænmeti verður kynnt. Það verður nokkurs konar uppskeruhátíð og ég veit að þetta verður mjög spennandi. Fólk vill vita um uppruna vörunnar, við sjáum það fyrir jólin þegar menn eru að smakka á hangikjöti af ýmsum toga. Þetta er eins og þegar menn eru að smjatta á rauðvíni. Við eigum mjög mikla möguleika í þessum efnum og ég hvet hæstv. landbúnaðarráðherra til dáða.