131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Heimasala afurða bænda.

636. mál
[15:20]

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætlaði einmitt að koma inn á hið sama og hv. 1. þm. Reykv. n., Össur Skarphéðinsson. Það var verst að hann hafði of skamman tíma til að geta lokið ræðunni. En auðvitað er hann einnig að tala um að víkka heimildir þannig út að bændur geti lagað vín, t.d. fíflavín og úr öðrum jurtum og öðru því sem þeir hafa möguleika á að framleiða á sínu búi, berjavín og þar fram eftir götunum. Við höfum, a.m.k. sumir hv. þingmenn, smakkað berjavín og fíflavín og ýmislegt annað sem er mjög gómsætt. Ég gerði þetta að sérstöku umræðuefni á fundi hjá Stéttarsambandi bænda þegar ég var landbúnaðarráðherra en fékk ekki góðar undirtektir. Mig minnir að formaður Búnaðarfélagsins á þeim tíma, ágætur framsóknarmaður, hv. þm. Jón Helgason, hafi haft lítinn skilning á þessum málum. En ég vonast til þess að sá landbúnaðarráðherra sem nú er, hæstv. ráðherra Guðni Ágústsson, sé sama sinnis og ég um nauðsyn vínræktar bænda.