131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Söfn og listaverk í eigu Símans.

632. mál
[15:40]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Landssíminn er í dag hlutafélag og það sem fyrir dyrum stendur er að selja hlutabréf ríkisins í því félagi. Þar eru fleiri eigendur, eitthvað á tólfta hundrað manns, þar á meðal hv. fyrirspyrjandi eins og hefur komið fram við annað tækifæri. Einn hluthafi getur ekki ráðskast með tilteknar eigur innan félagsins öðruvísi en þá í gegnum stjórnendur þess fyrir milligöngu aðalfundar og stjórnar. Það er því ekkert um það að ræða að ríkisstjórnin eða sá ráðherra sem fer með hlutabréf ríkisins tilkynni að það eigi að taka tilteknar eignir eða verk út úr þessu fyrirtæki áður en það er selt.

Hins vegar hafa stjórnendur fyrirtækisins t.d. ráðstafað fjarskiptasafninu við Suðurgötu til ríkisins, til Þjóðminjasafnsins. Það var gert nýlega með sérstökum samningi og sérstökum heimanmundi hvað varðar rekstur safnsins á næstu tveimur árum. Það var auðvitað mjög myndarleg ákvörðun. Þar er um að ræða safngripi úr fjarskiptasögu landsins sem að sjálfsögðu eru best geymdir í vörslu Þjóðminjasafnsins.

Hins vegar held ég að Síminn sé ekkert sérstaklega vel birgur af listaverkum, t.d. ekkert miðað við bankana, og hefur ekki safnað slíkum gripum. Hvað sem því líður fylgir allt með sem þetta félag á þegar hlutabréfin verða seld og um það gilda nákvæmlega sömu lögmál og gilda almennt í hlutabréfaviðskiptum. Ef menn kaupa bréf í fyrirtækjum kaupa þeir allt sem fyrirtækið á og það er ekki hægt að gera svona ráðstafanir eins og hv. þingmaður er að gefa í skyn þegar um er að ræða félag af því tagi.