131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Söfn og listaverk í eigu Símans.

632. mál
[15:44]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég held að það sé orðið mikið vandamál fyrir stjórnsýsluna á Íslandi hvað hæstv. fjármálaráðherra Geir Haarde hefur unnið lengi í ráðuneytum því að hann er hættur að tala eins og stjórnmálamaður og farinn að tala eins og bírókrat.

Hér er málið náttúrlega það að hæstv. ráðherra er handhafi 99% hlutabréfa í Símanum fyrir hönd þjóðarinnar. Hann segir þó ekki frá því, eftir að hafa fengið þessa fyrirspurn, heldur segir hann að hann haldi að ekki sé mikið af listaverkum til hjá Símanum. Hann veit það sem sé ekki, hann hefur ekki haft fyrir því að láta gera neina rannsókn á því eða spyrjast fyrir um það hjá Landssímanum sem hann þó er að fara að selja. Hæstv. ráðherra veit sem sé ekki hvað Síminn á. Hann veit ekki hvað hann ætlar að selja.

Það verður líka að vekja athygli hæstv. fjármálaráðherra á því að hann getur sem handhafi þessara hlutabréfa í Símanum á aðalfundi hvenær sem er borið fram tillögu um það að Síminn geri í fyrsta lagi skrá yfir öll þessi verk og í öðru lagi ráðstafi þeim með gjöf til ríkisins eða hvert annað sem er. Ég er þess fullviss að fulltrúi okkar alþingismanna í þessu fyrirtæki, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, mundi fúslega og glaðlega gera bandalag við hæstv. fjármálaráðherra um þetta verk.