131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Söfn og listaverk í eigu Símans.

632. mál
[15:45]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að taka málið upp. Það hefði verið betur að menn hefðu verið svo forsjálir og haldið vöku sinni hér á þingi þegar unnið var að sölu bankanna, að þar hefðu ekki orðið þau leiðu mistök sem þar urðu.

En það er ekki boðlegt, virðulegur forseti, að hæstv. fjármálaráðherra komi hér upp og segi þinginu og fólkinu í landinu að einn hluthafi geti ekki ráðskast með málefni eins og þetta í Landssímanum. Hluthafinn á 98,8% í fyrirtækinu og hann getur auðvitað farið sínu fram í því félagi. Auðvitað getur hann ekki tekið listaverk út úr því nema fyrir komi sanngjarnt endurgjald þannig að ekki sé gengið á eignir þeirra hluthafa sem halda 1% hlutafjár, en hann hefur öll tök til þess. Og hann á auðvitað trúnaðarmenn í stjórn félagsins og þarf á engan hátt að bíða aðalfundar með jafnsmávægilegt atriði og þetta er í rekstri stórs félags (Forseti hringir.) og varðar ekki kjarna starfsemi þess. (Forseti hringir.) Ef þeir ekki láta af því getur hann sett á hluthafafund hvenær sem vera skal. (Forseti hringir.) En það er bara algjörlega óboðlegt, virðulegur forseti, að hæstv. fjármálaráðherra dragi upp svo villandi mynd (Forseti hringir.) hér fyrir Alþingi Íslendinga.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. þingmann að virða ræðutíma.)