131. löggjafarþing — 104. fundur,  6. apr. 2005.

Söfn og listaverk í eigu Símans.

632. mál
[15:46]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Vissulega er Landssíminn hlutafélag sem nú stendur til að selja hlut ríkisins í. Og vissulega þegar hæstv. fjármálaráðherra er handhafi hluta ríkisins, sem er mikill meiri hluti bréfanna, þá getur hann auðvitað ráðið því hvað gert verður við listaverkin sem er verið að spyrja um hér.

Ekki hefur komið fram hversu mikið af listaverkum er til í eigu Símans — og hér er hæstv. samgönguráðherra sem hefur verið yfirmaður Símans til skamms tíma, hann gæti kannski upplýst nú í umræðunni hverjar eigur Símans eru í listaverkum. Það væri full ástæða til að það kæmi fram, og ég óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra upplýsi það: Hvað hyggst hann sem handhafi stærsta hluta hlutabréfanna gera við listaverkin? Á að selja þau sérstaklega, eins og hv. fyrirspyrjandi spyr um, eða mun hann gefa þau ríkinu áður en salan fer fram?