131. löggjafarþing — 105. fundur,  6. apr. 2005.

Þróunarsjóður sjávarútvegsins.

387. mál
[16:04]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þingsályktunin sem hér hefur komið til umræðu, sem var samþykkt á hv. Alþingi, átti sér aðdraganda. Hún átti þann aðdraganda að sá sem hér stendur, ásamt hv. þingmönnum Jóhanni Ársælssyni, Guðmundi Hallvarðssyni, Árna Steinari Jóhannssyni og Hjálmari Árnasyni, flutti frumvarp um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins skyldi veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu gamalla skipa. Sá styrkur var ætlaður til að greiða út á hverja rúmlest skips sem tekið væri til varðveislu eftir árið 1990.

Í meðförum sjávarútvegsnefndar, þar sem tillagan kom til meðferðar, varð að samkomulagi, m.a. við þann sem hér stendur og aðra flutningsmenn, að breyta meðferð hugmynda okkar úr frumvarpi í þingsályktun og flutti sjávarútvegsnefnd þingsályktun um málið.

Hún hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa tillögur um hvernig skuli staðið að varðveislu gamalla skipa og báta sem eru mikilsverðar minjar um atvinnu og byggðasögu. Í því sambandi verði mótaðar reglur um fjármögnun, sem m.a. Þróunarsjóður sjávarútvegsins taki þátt í, og varðveislugildi báta og skipa skilgreint.“

Þessi tillaga var samþykkt með 49 samhljóða atkvæðum á hv. Alþingi. Hún hefur síðan legið fyrir, frá því í maí 2000 og auðvitað stóð til að úr Þróunarsjóðnum yrðu veittir ákveðnir fjármunir til að takast á við þetta verkefni. Það hefur lengi legið fyrir og því er það ósatt hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra að enginn hefði getað séð fyrir að afgangs yrðu fjármunir í Þróunarsjóðnum. Það lá fyrir þegar á árinu 2000 að svo yrði.

Sú tillaga sem minni hlutinn flytur núna, um að 400 millj. kr. skuli eftir sem áður ganga til Hafrannsóknastofnunar, ganga inn í sjóð í sjávarútvegsráðuneytinu — sem hæstv. sjávarútvegsráðherra mundi sjálfur stjórna með þremur stjórnarmönnum sínum — nægir fyllilega til að takast á við verkefni í hafrannsóknum og við leggjumst ekki gegn því. En við teljum að því sem umfram er, sem er meira fé en menn hafa gert ráð fyrir, ætti að verja til þess að uppfylla samþykkt Alþingis frá árinu 2000.

Ég tel það til mikils vansa ef menn ætla að leyfa því að gerast á hv. Alþingi að ráðherra komist upp með að hunsa algjörlega vilja Alþingis frá árinu 2000 og að þingsályktunartillögur verði marklaus plögg. Við hljótum þá að spyrja okkur, virðulegi forseti, í framtíðinni: Hvert er gildi þingsályktunartillagna yfirleitt? Hafa þær formlegt gildi til þess að eftir þeim verði farið eða hefur vilji ráðherrans þar meira vægi en samþykkt Alþingis á hverjum tíma? Þetta held ég að við verðum að skoða í framhaldi ef svo illa fer að stjórnarþingmenn, sem greiddu þessu máli atkvæði á sínum tíma, leggjast gegn málinu.