131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Sala Lánasjóðs landbúnaðarins.

[10:42]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það er í raun dæmigert að fá svona mál sem ábyggilega getur haft margvíslegar afleiðingar inn til þings þegar aðeins fjórar vikur lifa af starfstíma þess. Við erum ekki einu sinni búin að fá málið sjálft í hendurnar, þingmenn, mál sem væntanlega mun fjalla um afdrif Lánasjóðs landbúnaðarins.

Lánasjóður landbúnaðarins stendur í sömu sporum eftir breytingar á fjármálamarkaði og t.d. Íbúðalánasjóður að því leyti að lán sjóðanna sem tekin eru til að fjármagna útlán til viðskiptavina eru á hærri vöxtum en bankalán í dag, hærri vöxtum en sjóðurinn sjálfur lánar viðskiptavinum sínum á. Þannig munu eignir Lánasjóðs bænda smám saman étast upp að óbreyttu. Viðskiptavinir sjóðsins geta greitt upp lán án uppgreiðslugjalds en það getur sjóðurinn sjálfur ekki.

Hvað er þá til ráða? Ekki að sitja með hendur í skauti og ekki er vit í að halda sjóðnum á lífi einungis í þeim eina tilgangi að halda honum á lífi. Að mínu mati kemur vel til greina að sameina Lánasjóð landbúnaðarins Lífeyrissjóði bænda en það skiptir ábyggilega ekki meira máli fyrir bændur þar sem þeim er bætt upp frá almannatryggingum það sem á vantar frá sjóðnum upp á almennar bætur. Sennilega er dæmi þeirra eins og konunnar sem er nýorðin ekkja og var tilkynnt að hún fengi 10 þús. kr. til að koma til móts við óhagræðið af því að búa ein. Það stóð heima að nýr liður birtist á seðlinum frá Tryggingastofnun en einnig frádráttur upp á sömu upphæð og á bótunum hennar vegna þess að tekjurnar hennar voru þar með orðnar of háar, komnar upp í heilar 100 þús. kr. á mánuði. Hún stóð því í sömu sporum hvað sem öllum bótum leið eins og bændur munu gera því að (Forseti hringir.) bætur þeirra frá ríkinu munu lækka á móti hugsanlega hækkuðu framlagi frá lífeyrissjóðnum.