131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Sala Lánasjóðs landbúnaðarins.

[10:45]

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Lánasjóður landbúnaðarins stendur nú frammi fyrir gjörbreyttum aðstæðum á lánamarkaði og því þarf að endurmeta stöðu hans.

Eftir að vextir tóku að lækka hafa margir bændur leitað eftir lánsfé hjá viðskiptabönkunum í stað þess að taka lán hjá lánasjóðnum. Þá hafa bændur einnig verið að greiða upp lán sín hjá sjóðnum í miklum mæli og fært viðskipti sín yfir til viðskiptabankanna. Það er því komið að kaflaskilum í starfsemi lánasjóðsins og því varla forsendur lengur til áframhaldandi innheimtu búnaðargjalds til hans.

Innheimta búnaðargjalds til að greiða niður vexti hefur lengi verið umdeild meðal bænda og afar ólíklegt er að bændur sætti sig við það öllu lengur. Það er því mitt mat að vænlegast sé að selja eignir lánasjóðsins en ríkið haldi eftir skuldbindingum hans. Lánasjóðurinn hefur vissulega veitt ákveðið öryggi og jafnrétti milli landshluta. Ég tel þó að ef bankarnir taka við þessum viðskiptum muni þeir leitast við að þjóna landbúnaðinum vel um allt land. En það þarf að tryggja hagsmuni og réttarstöðu skuldara lánasjóðsins ef það verður gert því að stærstur hluti þeirra lána sem bændur hafa tekið hjá sjóðnum eru með breytilegum vöxtum. Söluandvirði lánasjóðsins verði ráðstafað til að tryggja lífeyrisréttindi bænda sem eru ákaflega bágborin. Bændur hafa byggt upp höfuðstól sjóðsins þannig að þeir eiga hann í rauninni hvernig sem við skilgreinum það hver á hvað mikinn hluta. Þá má líka vel hugsa sér að Byggðastofnun breyti reglum sínum og geti þannig farið að lána til hefðbundins landbúnaðar.

Hv. málshefjandi sagði áðan að við værum að fleyta okkur eftir straumnum og þá þýðir heldur ekki, hv. þm. Jón Bjarnason, að synda á móti honum og neita að taka þátt (Forseti hringir.) í lífinu þegar það breytist.

(Forseti (JóhS): Forseti vill minna hv. þingmann á að ávarpa forseta en ekki einstaka þingmenn.)