131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[11:13]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Ég þakka þingmanninum, virðulegi forseti, fyrir undirtektirnar við þetta þingmál. Ég tek undir það að nauðsynlegt er að styrkja þennan lífeyrissjóð eins og hér er verið að gera og að það sé sjálfsagt mál að leita fleiri leiða til að gera það. Meðal annars hefur komið til athugunar, eins og hér var rætt í morgun, hvort hægt sé að nýta fjármuni úr Lánasjóði landbúnaðarins með einhverjum hætti í því skyni, en það er að sjálfsögðu sjálfstætt mál sem ekki verður rætt í þessari umræðu.