131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[11:15]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get að sjálfsögðu ekki sagt fyrir um það með hvaða hætti stjórn sjóðsins muni nýta þær heimildir sem verið er að veita henni. Hitt veit ég að mótframlag launagreiðanda í sjóðinn kemur ekki frá neinum launagreiðanda heldur frá ríkinu. Þess vegna gilda m.a. um þetta málefni sérstök lög og þess vegna heyrir sjóðurinn ekki undir almenna lífeyrissjóðakerfið sem væri að mörgu leyti eðlilegt. Ríkið greiðir mótframlag vinnuveitandans. Við erum því að skapa svigrúm og ég sem fjármálaráðherra og ábyrgðarmaður ríkissjóðs er að leggja til að veittar verði heimildir til að hægt sé að greiða meira úr ríkissjóði sem mótframlag í sjóðinn ef því er að skipta þegar þar að kemur.

Ég vek svo athygli á því í framhaldi af þessu að sérstök lög voru um lífeyrissjóð sem við afnámum fyrir jól, lögin um Lífeyrissjóð sjómanna, vegna þess að ekki var talið lengur nauðsynlegt eða eðlilegt að um þann sjóð giltu sérstök lög, hann gæti fallið undir almennu lífeyrissjóðalöggjöfina enda var þar ekki um að ræða að þar væri ekki launagreiðandi sem gæti innt af hendi mótframlagið. Það er munurinn.

Vonandi tekst að komast fyrir vind hvað varðar vanda lífeyrissjóðsins. Auðvitað vonum við það öll en þar hefur búið um sig gamalgróinn fjárhagsvandi og, eins og við þekkjum öll, eru greiðslurnar úr lífeyrissjóðnum til bænda, eftirlaunaþega og fyrrverandi bænda, ekki háar eins og fram kom fyrr í vetur á þinginu þegar ég svaraði fyrirspurn frá hv. þm. Drífu Hjartardóttur um það efni.