131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:09]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um Lífeyrissjóð bænda. Sá lífeyrissjóður á í mjög miklum vandamálum sem tengjast ýmsu. Þau tengjast því að iðgjaldagreiðslur í sjóðinn hafi verið mjög lágar og með ákveðnu hámarki lengi vel og þau tengjast því líka að aldursdreifing sjóðsins er mjög slæm.

Ég hef áður bent á að íslenska lífeyriskerfið, eins gott og það er, hefur í sér ákveðna tímasprengju sem er að lífeyrisréttindin eru óháð aldri, þ.e. menn fá sama rétt fyrir hverjar þúsund krónur sem greiddar eru fyrir tvítugan mann og fyrir sextugan mann þó að réttindin ættu að vera miklu minni fyrir þann sextuga en þann tvítuga vegna þess að iðgjöldin eru miklu skemur á vöxtum.

Margir sjóðir hafa tekið upp aldurstengd lífeyrisréttindi, þeir sem það geta en aðrir munu ekki geta það og þar stöndum við frammi fyrir því að skerða verður rétt hjá þeim sjóðum sem eru með slæma aldursdreifingu, þ.e. það fólk sem við skikkum með lögum frá Alþingi til að borga í lífeyrissjóði sem eru með slæmri aldursdreifingu. Það þarf að sætta sig við skerðingu bara af því að félagar þeirra í sjóðnum eru orðnir gamlir.

Í lögum um lífeyrissjóði er getið um það að ekki megi greiða lægra en eitthvað ákveðið en ekkert er sagt hvað gerist ef sjóðurinn getur það ekki og nú er svo komið með Lífeyrissjóð bænda að hann er að nálgast þetta lágmark og ekkert er í lögunum um hvað gerist ef hann getur ekki staðið við að borga það lágmark sem lögin þó gera ráð fyrir. Þetta er ákveðinn galli við þau lög og mér finnst menn þurfa að ræða hvað gera eigi við þá lífeyrissjóði sem lenda undir þessu lágmarki.

Það eru tvær hættur sem steðja að lífeyrissjóðakerfinu í landinu í heild sinni og þá að Lífeyrissjóði bænda eins og öðrum. Það er fyrst lækkandi ávöxtun. Það er ljóst að lækkandi ávöxtunarkrafa, eins góð og hún er nú fyrir húsbyggjendur og launþega landsins, kemur í bakið á lífeyrissjóðunum. Í reiknigrundvelli þeirra er gert ráð fyrir 3,5% raunávöxtun, þ.e. ávöxtun umfram verðlag. Nú er sú ávöxtun einmitt að nást á markaði, þ.e. vextir eru að fara niður fyrir 4% á mjög tryggum bréfum og það er það sem miða þarf við því að hin bréfin eru ótrygg og geta tapast og spurning hvað gerist með lífeyrissjóðakerfið ef ávöxtunin fer niður fyrir 3,5%. Svo eru það örorkulíkurnar sem ég held að allir ættu að berjast við að reyna að laga sérstaklega ef örorkan er að einhverju leyti kerfislæg, þ.e. ef hún er búin til með kerfinu. Ég hef grun um að það sé gert á þann máta í núverandi kerfi en ég ætla ekki að fara sérstaklega inn á það hérna.

Það er einkenni á Lífeyrissjóði bænda að ríkið greiðir hlut atvinnurekanda sem segir manni að á einhverju stigi hafa bændur í rauninni gerst opinberir starfsmenn og á það hef ég oft áður bent að er mjög hættulegt og alveg sérstaklega hættulegt fyrir bændur því að þeir eiga auðvitað að vera, eðli máls samkvæmt, sjálfstæðir atvinnurekendur. Þeir eru menn sem búa sjálfstætt og það er mjög undarlegt að ríkið skuli greiða iðgjald fyrir þá sem atvinnurekandi því að þeir eru að sjálfsögðu sínir eigin herrar. Þannig hef ég alltaf litið á það. Ég vil að bændur skoði það að reyna að hverfa frá þeirri hugsun að ríkið sé launagreiðandi þeirra og fari að líta á sjálfa sig sem sjálfstæða aðila, sem sjálfstæða atvinnurekendur.

Vandamál Lífeyrissjóðs bænda eru mjög hættuleg fyrir landbúnaðinn í framtíðinni vegna þess að nýir bændur — segjum að kæmi uppsveifla í landbúnaði sem er vissulega að gerast í mjólkurframleiðslunni — eru skikkaðir til að greiða í Lífeyrissjóð bænda, þ.e. taka á sig þær fortíðarskuldbindingar og þann fortíðarvanda sem þar er. Þetta getur orðið til þess að menn vilja hreinlega ekki fara inn í stéttina, þetta getur hamlað því að nýsköpun og nýliðun verði hjá bændum og það er mjög hættulegt. Þetta þurfa menn að ræða líka, hvort rétt sé að skikka menn sem eru að byrja í atvinnurekstrinum til að greiða í Lífeyrissjóð bænda og taka þátt í að leysa þennan vanda sem safnast hefur upp á liðnum árum.

Það er ýmislegt sem hægt er að gera. Menn hafa nefnt hérna Lánasjóð landbúnaðarins sem er furðulegt fyrirbæri sem ég hef nú alltaf gagnrýnt vegna þess að búvörugjaldið leggst á alla bændur, ríka sem fátæka, en lánin fá eingöngu þeir sem hafa veð og hafa tekjur til að borga lánin. Ég hef stundum sagt að þetta sé skattlagning á fátækt, á fátæka bændur, því að þeir verða að borga búvörugjaldið en þeir fá ekki lán af því að þeir hafa ekki nægilegar tekjur eða hafa ekki nægileg veð, nægilegar eignir. Ég er því mjög ánægður með að menn skuli vera að leggja þann sjóð af eða að þróunin skuli vera sú að hann eigi að leggja af.

En að fleiru væri hægt að huga til að setja í Lífeyrissjóð bænda, t.d. Hótel Sögu sem bændur eiga. Ég sé engan annan eiganda að Hótel Sögu því að þeir greiddu þetta á sínum tíma. Ef menn ekki geta fundið hinn raunverulega eiganda sem eru þeir bændur sem á sínum tíma, upp úr 1954 held ég, greiddu ákveðnar greiðslur til Bændasamtakanna til að byggja Hótel Sögu, þá finnst mér eðlilegt að andvirði Hótel Sögu verði látið renna í Lífeyrissjóð bænda.

Sama má segja um KEA. Ef menn finna ekki eigendur að KEA, sem eru náttúrlega bændur í Eyjafirði í mínum huga — það er örugglega hægt að finna þá og dreifa peningunum sem hlutafé til bænda í Eyjafirði — en ef mönnum tekst það ekki finnst mér sjálfsagt að þeir fjármunir sem eru í KEA, sem eru umtalsverðir, renni í Lífeyrissjóð bænda. Ég sé ekki að þetta fé eigi að sigla einhvern veginn sjálfvirkt um efnahagslífið undir stjórn einhverra manna annarra en bænda. Ég vil bara að bændur eigi þetta fé klippt og skorið.

Svo er það Mjólkursamsalan í Reykjavík sem á 5 milljarða eða 6 milljarða í sjóði sem enginn á. Auðvitað eiga bændur í Ölfusinu og á Suðurlandi og Vesturlandi þessa peninga. Takist ekki að finna eigendur að því beint, þ.e. að ákveðinn bóndi í Ölfusinu eigi sínar 3 milljónir eða 4 eða 5 milljónir hjá Mjólkursamsölunni sem hlutafé þá finnst mér rétt að sá sjóður verði settur inn í Lífeyrissjóð bænda. Það eru nú ýmsar matarholurnar til til þess að finna því að ég er á móti þessu fé sem siglir um atvinnulífið undir stjórn einhverra manna — ég hef nefnt þetta með sparisjóðina — sem ráða því og geta notað þetta fé til þess að byggja upp völd og eigin hagsmuni. Ég vil koma þessu fé til eigendanna og það liggur beint við að setja í Lífeyrissjóð bænda þá sjóði sem bændur eiga örugglega. Það er dálítið merkilegt, herra forseti, að slíkt fé virðist hafa myndast aðallega hjá landbúnaði, þetta fé sem enginn á, fé án hirðis sem ég kalla svo.

Við ræddum áðan samspilið við Tryggingastofnun. Það er nú ekki alveg eins slæmt og það lítur út fyrir að vera vegna þess að greiðslur úr Lífeyrissjóði bænda eru svo, ég vil segja, fáránlega lágar. Menn eru að fá kannski 5 þús. kr., 10 þús. kr., 15 þús. kr. og hækkun á þeim greiðslum jafnvel þó þær tvöfölduðust úr 5 þúsund kr. upp í 10 þúsund kall, sem getur munað viðkomandi lífeyrisþega töluverðu — þetta er fólk sem hefur ekki mikið á milli handanna — þær greiðslur skerða ekki tekjutryggingu almannatrygginga vegna þess að þær eru undir lágmarkinu sem menn mega hafa úr lífeyrissjóði. Ég man ekki nákvæmlega hvað það lágmark er en einhvern tíma var það 18 þús. kr.

Hér í þessu frumvarpi er talað um að iðgjaldið í lífeyrissjóðinn eigi að vera að lágmarki 4% og að hægt sé að hækka það. Það verður væntanlega gert með búvörusamningi. Þetta er þá í rauninni krafa á ríkið. Það mun aukast krafa á ríkið og ég vara við því. Ég vara bændur við því að auka enn frekar þá hugsun að þeir séu launþegar hjá ríkinu. Ég minni á að staða bænda hefur batnað mjög mikið undanfarin ár. Hún var mjög döpur fyrir. Sérstaklega hefur staða mjólkurbænda batnað mjög. Kvótinn hefur hækkað í verði, þ.e. að eignir þeirra eru orðnar verðmætari og verða verðmætari með hverju árinu. Síðan hefur verð á jörðum líka hækkað mikið. Það er dálítið undarlegt að tala um að beita félagslegum reglum eða aðferðum til að bæta stöðu fólks sem á kannski tugi eða hundruð milljóna í verðmæti í mjólkurkvóta og í jörðum. Mér finnst því að það þurfi að taka dálítið tillit til þess hvernig eignastaða bænda hefur batnað umtalsvert á undanförnum árum sem betur fer.

Sauðfjárbændur eru náttúrlega enn þá í mjög lakri stöðu. Þeir hafa verið sennilega tekjulægsta stétt landsins, þökk sé margra ára kerfi landbúnaðar sem ég hef margoft gagnrýnt. Sú stefna hefur verið gífurlegt helsi á þessa stétt. En staða þeirra er að batna vegna þess að menn eru að slaka á klónni að mörgu leyti, samanber frjálst framsal og annað slíkt, þannig að mér sýnist að staðan sé að batna og bændur ættu sjálfir að fara að leiða hugann að því að þeir séu ekki launþegar hjá ríkinu og fara að taka yfir hluta eða allt iðgjald launagreiðanda.