131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:22]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú er mér þannig háttað, mínum gáfum og þekkingu, að ég þarf alltaf að lesa lögin um almannatryggingar til þess að rifja upp hvernig það er. Annaðhvort er ég svona takmarkaður eða kerfið svona flókið. Ég vonast til að það sé þetta seinna. Það er greinilegt að hv. þingmenn þekkja þetta kerfi ekki alveg í hörgul.

Þannig er að tekjur eru mismunandi meðhöndlaðar eftir því hvort það eru launatekjur eða lífeyristekjur og lífeyristekjurnar eru með ákveðnu þaki. Það var einmitt sett til þess að milda samspil lífeyrissjóða og Tryggingastofnunar og þetta mark var 18 þúsund kr. einhvern tíma. Ég þyrfti í rauninni að lesa lögin. Mér gafst ekki tóm til þess eftir að þessi umræða kom upp um samspil Tryggingastofnunar við lífeyrissjóðina. En þannig er að þessar greiðslur úr lífeyrissjóði eru með ákveðnu hámarki án þess að þær fari að skerða. Eftir það skerða þær tekjutryggingu almannatrygginga. Grunnlífeyrir almannatrygginga skerðist ekki vegna greiðslu úr lífeyrissjóði. Hann skerðist hins vegar vegna launatekna þegar þær eru orðnar umtalsvert háar.