131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:25]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við erum náttúrlega með eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og spurningin er hvernig hægt sé að flytja svona eignir til. En það er ljóst að varðandi eignir sem enginn á er auðveldara um vik og alveg sérstaklega þegar hægt er að færa rök fyrir því að ákveðinn þjóðfélagshópur eigi viðkomandi eign, t.d. með því að hafa greitt til eða byggt upp viðkomandi eign, eins og KEA sem er samvinnufélag í eigu bænda eða var það. Þeir sem stýra þessu í dag eru á mjög óbeinan hátt kosnir af þeim sem eru þarna inni, þ.e. bændum. En það gerist með tímanum að þetta fé fjarlægist stöðugt eigendur sína. Það gerðist t.d. hjá Brunabót sem er komin ansi langt frá þeim sem áttu það á sínum tíma, þeim sem voru tryggðir hjá hinu gagnkvæma tryggingafélagi og samkvæmt reglum og lögum um gagnkvæm tryggingafélög áttu þetta fé. En með lögum frá Alþingi var þetta fé tekið af þeim og sett inn í sjálfseignarstofnun sem núna siglir gegnum atvinnulífið undir stjórn einhverra manna. Ég veit ekki hverjir þeir eru og hvernig þeir eru valdir.

Ég held því að ef það er góður vilji til og samstaða meðal bænda og þingmanna þá ætti að vera hægt að flytja þetta fé inn í Lífeyrissjóð bænda sem er líka í eigu þessarar sömu stéttar og hún hefur hag af.