131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Virðisaukaskattur o.fl.

697. mál
[13:35]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að ræða um það sama og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir en frá öðru sjónarhorni. Í greinargerð með frumvarpinu stendur, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi hafa íslensk stjórnvöld markað sér þá stefnu að miða að sjálfbæru vetnissamfélagi hér á landi í framtíðinni. Íslenskur orkubúskapur býður upp á framleiðslu vetnis í umhverfisvænni orkuhringrás með ódýrari hætti en víðast annars staðar.“

Þarna er fullt af fallegum orðum, í fyrsta lagi er vetnissamfélagið sjálfbært. Það segir að virkjanir á Íslandi séu sjálfbærar. Það er rétt og ég gleðst yfir því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir sé sammála því, vatnsaflsvirkjanir eru sjálfbærar.

Svo er þetta með vetnissamfélagið. Vetnisnotkun á bíla er ekkert annað en rafgeymir. Verið er að geyma orkuna til að nota hana aftur. Verið er að framleiða rafgeyma um allan heim og sífellt aukin tækni í því. Þeir verða minni og léttari með hverjum mánuðinum. Það sjáum við á tölvunum okkar. Ég sé ekki að þessi rafgeymir, sem er stórhættulegur af því að það þarf að geyma vetnið undir miklum þrýstingi í vökvaformi, annars tekur það svo mikið pláss, ég hugsa að þessi rafgeymir sé ekkert endilega betri en aðrir. Það þarf raforku til að framleiða vetni með rafgreiningu, síðan þarf að geyma það og svo er það brennt eða því breytt í raforku aftur. Þetta er ekkert annað en rafgeymir. Ég tel að menn eigi ekki að horfa svo bláeygir í framtíðina með það að þetta geti orðið eitthvert framtíðarþjóðfélag, vegna þess að það er ekki verið að búa til neina orku.

Sums staðar í heiminum koma reyndar upp úr jörðinni lofttegundir sem innihalda vetni eða vetnissambönd. Þær þjóðir gætu hugsanlega nýtt það vetni til að knýja vetnisbíla en við þurfum raforku til að breyta vatni í vetni og það er dýrt.

Það er gott að stunda hagnýtar vísindarannsóknir. Það var t.d. gert með Línu.Net, klikkaði reyndar og allt í lagi með það en menn þurfa að átta sig á því að verið er að gera rannsóknir. Menn stunda háskólarannsóknir eða slíkt og þær geta farið svona eða hinsegin. Þær þurfa ekki endilega að bera ávöxt. Ég set því mikinn fyrirvara við hugsunina alla sem mér finnst stundum minna á trúarbrögð en ekki þannig að menn líti kalt á hlutina.

Varðandi það að þetta sé umhverfisvæn orkuhringrás get ég ekki séð hvernig sú orkuhringrás verður til, því að þegar bíllinn er búinn að brenna þetta verður þetta að vatni og vatnið er ekki orka enn sem komið er. Auðvitað gufar það upp og fellur niður sem vatn og segja má að þar með myndist orkuhringrás frá sólinni sem hitar jörðina en þetta er ekkert frekar orkuhringrás en margt annað. Ég vil því setja mikla fyrirvara við þær tvær setningar sem ég las.