131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Virðisaukaskattur o.fl.

697. mál
[13:42]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Andsvar hv. þingmanns gefur auðvitað til kynna að hann skilur fullkomlega hringrásarhugsunina sem hann hallmælti í ræðu sinni áðan. Hann gerði lítið úr hringrásarhugtakinu sem notað er í frumvarpinu en nú gefur hann til kynna að hann hugleiði hringrásina þegar hann fjallar um að stálframleiðsla, sem þarf að fara fram til að búa til hverfla í virkjanir, valdi mengun og umhverfisspjöllum. Það er auðvitað alveg rétt. Þetta er einmitt verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Við þurfum að temja okkur hringrásarhugunina til að við getum á hverjum stað í ferlinu séð til þess að viðkomandi framleiðsla eða athafnir mannsins valdi ekki skaða á umhverfinu. Það á jafnt við um stálframleiðslu og álframleiðslu. Það á líka við um vetnisframleiðsluna. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni.

Hins vegar eru rannsóknir á vetnisframleiðslu á því skriði að við getum ætlað að framfarir og tækninýjungar séu að verða þar jafnvel umfram aðrar greinar. Ég er ánægð með að hæstv. fjármálaráðherra styðji þau sjónarmið að Ísland geti komið inn og hjálpað vísindamönnum vítt og breitt um heiminn til að stunda þær rannsóknir með þeim meðulum og þeim tækjum sem lögð eru til í frumvarpinu.