131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Virðisaukaskattur o.fl.

697. mál
[13:44]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður svaraði því ekki til hvílík óskapa geymslumannvirki þyrfti til að geyma hálfs árs notkun þjóðarinnar af vetni undir gífurlegum þrýstingi og hve mikil umhverfisspjöll það kostaði að framleiða þau tæki þar sem þau eru framleidd og hvaða umhverfisspjöll það þýðir að vera kannski með fjórum sinnum stærri aflvélar í virkjununum. Mér finnst hv. þingmaður vera umhverfisspillandi, því miður.

Það sem ég gagnrýndi var orðið „orkuhringrás“. Auðvitað er þetta engin orkuhringrás. Orkan stoppar þegar bíllinn er búinn að nota hana og hefur breytt vetni í vatn. Því verður engin orkuhringrás. Nei, vatnið fer upp fyrir tilverknað sólarinnar. Orkan kemur þaðan. Það er ekki orkuhringrás. Þetta er einstefna á orku. Ég var að gagnrýna þetta og ég skil alveg fullkomlega hvar umhverfisspjöllin verða. Þau verða líka við framleiðslu á vélunum, hinum gífurlegu vélum sem þyrfti í rennslisvirkjanirnar þar sem vélarnar þyrftu að vera fjórum sinnum stærri en ella þegar maður tekur meðalrennslið. Ég skil líka að hin gífurlega geymsla á vetni og öll tæki og tól sem þar þarf kostar líka umhverfisspjöll þar sem þau eru framleidd.

Ég held, herra forseti, að það að geyma vatnið á bak við stíflu uppi á hálendinu þar sem safnast aur sem fyllir það á 400 árum séu miklu, miklu minni umhverfisspjöll.