131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Fjáröflun til vegagerðar.

720. mál
[13:46]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, sem finna má á þskj. 1078.

Tilefni þessa frumvarps eru þau lagaskil er verða 1. júlí næstkomandi þegar olíugjald og kílómetragjald samkvæmt sérstökum lögum þar um munu leysa núverandi þungaskattskerfi af hólmi, sbr. lög nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Með frumvarpi þessu er í fyrsta lagi tekið á því hvernig uppgjöri þungaskatts ökutækja og ökumælis skuli háttað við upptöku olíugjalds 1. júlí næstkomandi. Lagt er til að sú leið verði farin að lengja annað gjaldtímabil ársins 2005 þannig að í stað þess að því ljúki 10. júní skuli því ljúka 30. júní 2005. Þá er lagt til að álestrartímabilið verði stytt úr 20 dögum í 15 og að gjalddagi verði færður til 1. júlí og eindagi til 15. ágúst. Einnig er lagt til að reiknað verði út meðaltal ekinna kílómetra á dag á milli álestra af ökumælum ökutækja sem eru undir 10 tonn af leyfðri heildarþyngd og látið er lesa af á tímabilinu 15. til og með 29. júní. Á grundvelli þess meðaltals yrði akstur áætlaður til 30. júní. Með þessu móti er álagning þungaskatts tryggð út gjaldtímabilið en ekki hefði verið unnt að stefna öllum eigendum ökutækja með ökumæli til álestrar sama dag.

Í öðru lagi er með frumvarpi þessu lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða við lögin er fjallar um olíubirgðir í landinu við þau lagaskil er verða 1. júlí næstkomandi þegar umrædd lög um olíugjald og kílómetragjald o.fl. öðlast gildi. Annars vegar snýr ákvæðið að gjaldskyldum aðilum, skv. 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl. Með gjaldskyldum aðilum er hér átt við þá sem framleiða eða stunda aðvinnslu olíu sem gjaldskyld er, þá sem flytja inn til endursölu eða eigin nota olíu sem gjaldskyld er og þá sem kaupa olíu innan lands til endursölu. Eðlilegt þykir með tilliti til eftirlitshagsmuna og uppgjörs olíugjalds á fyrsta uppgjörstímabili þess að við gildistöku laga nr. 87/2004 liggi fyrir upplýsingar um magn gjaldskyldrar olíu í landinu og fjallar ákvæðið um skyldu þessara aðila til að upplýsa um það.

Þess ber að geta að sams konar ákvæði var að finna í ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 34/1995, um vörugjald á olíu, þar sem á sama hátt þótti rétt að hafa ákvæði um skyldu þessara aðila til að upplýsa um það magn olíu sem til væri í landinu við gildistöku þeirra laga, sem eins og kunnugt er komu reyndar ekki til framkvæmda.

Hins vegar snýr ákvæðið að aðilum sem ekki eru gjaldskyldir í skilningi 3. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald o.fl., en eiga eða eru með í sinni vörslu yfir 1.500 lítra af olíu sem fellur undir gildissvið þessara laga. Hér getur bæði verið um að ræða einstaklinga og fyrirtæki. Samkvæmt ákvæðinu hvílir sú skylda á þessum aðilum að upplýsa tollstjóra um magn birgða og greiða af þeim olíugjald í samræmi við ákvæði laga nr. 87/2004, ef heildarbirgðir eru meiri en 1.500 lítrar. Sams konar ákvæði var að finna í ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 34/1995, um vörugjald af olíu, og þar var einnig miðað við 1.500 lítra.

Sambærilegt viðmið, þ.e. 1.500 lítrar, var einnig notað þegar norsku lögin um olíugjald öðluðust gildi árið 1992 og þótti það gefa góða raun þar í landi. Af framkvæmdalegum ástæðum er ekki raunhæft að gera kröfu um að aðilar með minna en 1.500 lítra af olíu í sinni eigu eða vörslu tilkynni um það magn og greiði af því olíugjald.

Frumvarp þetta miðar að því að lögin sem hér er lagt til að setja taki gildi þegar í stað.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar, en fyrst til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.