131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Skaðabótalög.

681. mál
[14:22]

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp sem lætur frekar lítið yfir sér en kemur við mjög viðkvæma stöðu.

Fyrst ætla ég að ræða um skaðabótalögin almennt. Þannig er að einstaklingur fær eingreiðslu úr skaðabótalögunum frá tryggingafélagi háð örorkumati og þeim tekjum sem maðurinn hafði haft og búist er við að hann tapi.

Örorkumatið er oft háð líkum, þ.e. líkum á því að maðurinn verði fyrir áfalli sem valdi tjóni, þ.e. maðurinn getur verið fullvinnufær en það eru ákveðnar líkur á því að hann verði óvinnufær seinna. Þær líkur eru metnar og stundum á mjög hlutlægan hátt þannig að ef tjónið kemur ekki upp hefur maðurinn grætt. Ef það kemur upp af fullum þunga daginn eftir, eins og gæti gerst, hefur hann tapað.

Segjum að það séu metnar 30% líkur á því að maður sem hefur orðið fyrir einhverju áfalli verði 100% öryrki. Hann er vinnufær á því augnabliki. Áfallið gæti komið daginn eftir að greiðsla er innt af hendi. Þá er maðurinn 100% öryrki það sem eftir er og tapar 70% af því tjóni sem hann varð fyrir. Ef hann verður hins vegar aldrei öryrki alla ævi og getur unnið alla ævi er tjónið ekki neitt og þá er þetta happdrættisvinningur fyrir manninn. Maðurinn er því látinn bera áhættuna af því að ákveðnar líkur komi upp eða ekki.

Svo er það hitt að fólk fær eingreiðslur, kannski 10 millj., og þá vill svo til, herra forseti, að menn eignast fullt af vinum, það er alveg ótrúlegt. Þeir vinir eru mjög duglegir við að taka peningana að láni og eyða þeim fyrir viðkomandi. Nú er ég ekki hlynntur forsjárhyggju en ég held að þetta sé of mikil freisting og ég er búinn að sjá allt of mikið af dæmum um það þar sem fólk hefur fengið bætur að þær eru horfnar eftir sex eða sjö ár og ekkert til að standa undir þeirri örorku sem verið er að bæta. Þá standa menn frammi fyrir því að verða að sætta sig við það lágmark sem Tryggingastofnun greiðir vegna þess að bæturnar sem þeir fengu eru horfnar. Þess vegna tel ég mjög brýnt að taka upp það kerfi að í staðinn fyrir að menn fái eingreiðslu fái þeir bætur miðað við hvernig örorkan kemur fram og stofnaður verði einhver sjóður eða einhver aðili taki að sér, Tryggingastofnun eða annar, að greiða bæturnar eftir því sem tjónið fellur til en tryggingafélögin borgi eingreiðslu til Tryggingastofnunar eða þess aðila sem um þetta sér.

Þetta er það fyrsta. Það er sem sagt mjög stór galli í núverandi kerfi, fyrir utan það að þegar fólk lendir í tjóni er það stundum óuppgert til að byrja með og fólk lendir oft í að vera tekjulaust í marga mánuði, jafnvel mörg ár, þannig að þetta er virkilega gallað kerfi.

Svo er í kerfinu eins og það er í dag ákveðin oftrygging vegna þess að frá greiðslunum er dregið 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði sem segir að þær greiðslur sem menn eiga rétt á úr lífeyrissjóði sínum og munu fá úr honum, miðað við að örorkan sé eins og örorkumatið var, koma til frádráttar, en bara 40%. Menn eru því með 60% yfirtryggingu og það er aldrei meiningin að menn séu yfirtryggðir í neinu kerfi.

Verkalýðshreyfingin sagði á sínum tíma að ógurlegt væri að tryggingafélögin græddu á því að menn hefðu sparað í lífeyrissjóði. Því er til að svara að tryggingafélögin taka að sjálfsögðu alla tæknilega áhættu sem þau bera frá hinum tryggðu, frá bíleigendum, þannig að yfirtryggingin sem kemur fram er greidd annaðhvort af bíleigendum, þ.e. almenningi í landinu — það eru flestir sem eiga bíl — eða þá af lífeyrissjóðunum eða Tryggingastofnun. Allt er þetta greitt af almenningi í landinu. Oftrygging í þessum mæli er aukakostnaður fyrir þjóðfélagið og á ekki að eiga sér stað. Í öllum tryggingakerfum er þess vandlega gætt að ekki komi fram tvítrygging eða oftrygging. Það er í kerfinu í dag. Það mætti hugsa sér að lífeyrissjóðirnir greiddu hreinlega ekki örorkulífeyri til þeirra sem fá fullan örorkulífeyri samkvæmt skaðabótalögunum, ef menn vilja forða því að þetta lendi á lífeyrissjóðunum. Mér finnst að taka þurfi á þessu heildstætt.

Hv. frummælandi sagði að það væri slæmt að ekki væri hægt að breyta einstökum atriðum í lagasetningu án þess að taka öll lögin upp. Þetta er hárrétt. Það er nefnilega galli í lögunum.

Í 13. gr. laganna stendur í dag, með leyfi forseta:

„Bætur fyrir missi framfæranda til maka eða sambúðarmaka skulu vera 30% af bótum þeim sem ætla má að hinn látni mundi hafa átt rétt á fyrir algera (100%) örorku, sbr. 5.–8. gr.“

Ekkert meir. En þar stendur að frá því skuli draga bætur frá Tryggingastofnun og frá lífeyrissjóði. En maður sem er dauður fær ekki bætur, að sjálfsögðu ekki. Það eru því dregnar frá bætur sem aldrei koma. Þetta er náttúrlega galli og hættulegt vegna þess að dómstólar dæma eftir orðanna hljóðan. Þetta er sjálfsagt að laga þannig að ég styð eindregið regluna í 2. gr. frumvarpsins þar sem bætt er við „án frádráttar“.

Reyndar, og það sýnir hvað þetta er viðkvæmt, þyrfti að draga frá eingreiðslu sem menn geta fengið. Hugsanlegt er að menn fái eingreiðslur vegna frádráttar einhvers staðar frá og þá þarf að draga það frá. Þetta sýnir hvað þetta er viðkvæmt mál. Ég mundi orða þetta þannig „með frádrætti þeirra greiðslna sem menn fá“. Það er sennilega einfaldast. Þá er ekki verið að draga frá greiðslur sem menn fá ekki vegna tjónsins. Þetta er því mjög viðkvæmt.

Síðan er gerð mjög alvarleg breyting í frumvarpinu. Ég les þetta þannig að það skuli draga frá eingreiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum, bara eingreiðslur. Maður sem verður öryrki og fær alla tíð góðar greiðslur frá Tryggingastofnun og góðar greiðslur frá lífeyrissjóði er því þokkalega tryggður í bak og fyrir, getur fengið 70–80% af launum. Það á ekki að taka tillit til þeirra, bara til eingreiðslna frá Tryggingastofnun. Þetta sýnir hve viðkvæmt málið er. Þar yrði um að ræða alveg stórkostlega yfirtryggingu. Menn fengju bætur samkvæmt skaðabótalögum og svo fengju menn örorkulífeyri frá Tryggingastofnun. Það er ekki meiningin að menn græði á því að lenda í slysi, ekki af tekjutryggingunni. Auðvitað er áfall að lenda í slysi og verða öryrki o.s.frv. en við erum ekki að tala um miskabætur. Það er allt annar handleggur. Þær eru kannski allt of lágar á Íslandi og það get ég alveg viðurkennt. En við skulum ekki blanda saman tekjutryggingu, þ.e. því sem á að tryggja mönnum að þeir haldi þeim tekjum sem þeir tapa eða fái andvirði þeirra til baka og svo hins vegar miskabótum. Þær mættu gjarnan hækka. Menn fara því úr öskunni í eldinn, virðist mér svona við fyrstu sýn.

Fleira er vert að nefna úr frumvarpinu. Þegar metnar eru greiðslur frá lífeyrissjóði þá skal miðað við 4,5% ársávöxtun, segir þar. Hvað þýðir það? Það þýðir að reiknað er með því að maðurinn nái 4,5% á það fé sem hann fær. Það er gjörsamlega óraunhæft í dag. Það var kannski raunhæft fyrir tveimur árum þegar vaxtastigið í landinu var mun hærra. En eftir að tilboð bankanna fóru að berast síðasta sumar lækkuðu allir vextir í landinu. Fólk fær ekki lengur þá ávöxtun á fé sem það áður fékk. Þessir vextir eru því allt of háir. Það þýðir að greiðslurnar hækka, vegna þess að eftir því sem maður fær hærri vexti á þá peninga sem hann fær inn þeim mun lægri upphæð þarf hann til að fá sama lífeyri. Það þyrfti því að skoða þá ávöxtun sem nefnd er í lögunum í dag en það er ekki gert. Það sýnir að í lögunum er margt sem þarf að skoða, virkilega margt. Þetta er mjög viðkvæmt mál, að koma inn á þetta. Ég mundi gjarnan vilja að menn tækju á þessu sem heildstæðum vanda án þess að ég vilji endilega stoppa 2. gr. sem tekur bara á augljósum vandkvæðum sem við er að stríða í dag. Hin atriðin snúast í raun ekki um vandkvæði.

Það að menn fái greiðslur úr Tryggingastofnun liggur fyrir. Það er talað um það í greinargerð með frumvarpinu, þar segir, með leyfi forseta:

„… það er alls ekki öruggt að viðkomandi fái greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins um ókomna framtíð. Það getur m.a. ráðist af hjúskaparstöðu viðkomandi tjónþola og lagabreytingum í framtíðinni. Þá geta tekjur tjónþola haft áhrif til skerðingar, bæði launatekjur og fjármagnstekjur.“

Um það er eftirfarandi að segja: Ef maðurinn giftist seinna lækka bætur frá Tryggingastofnun. Þetta er útreiknanlegt. Líkurnar á því að maðurinn giftist liggja fyrir og það er hægt að reikna þetta út. Tryggingafræðingar gætu það. Sama gildir um tekjur í framtíðinni. Ef maðurinn er 100% öryrki fær hann væntanlega engar tekjur en ef hann er með einhverja vinnugetu er hægt að taka tekjusveiflur inn í dæmið, að það séu háar tekjur sum árin en lægri tekjur önnur ár. Þetta er allt hægt að reikna út og gefa sér ákveðnar forsendur.

Lagabreytingar í framtíðinni, slíkt má náttúrlega ekki setja inn. Segjum sem svo að skattar verði hækkaðir þá verða allir skertir. Það er ekki hægt að taka inn í, í greinargerð eða inn í lög í dag, einhverjar lagabreytingar í framtíðinni og ætla sér að taka á því.

Varðandi það að tekjur geti haft áhrif, þar á meðal fjármagnstekjur af þeim sömu bótum og maðurinn hefur fengið, þá er að sjálfsögðu hægt að reikna það út. En það má reikna út hvað lífeyrir frá Tryggingastofnun skerðist mikið vegna fjármagnstekna sem maðurinn fær af bótunum. Allt er þetta útreiknanlegt og tryggingafræðingar geta reiknað það út þannig að það er óþarfi að taka þetta inn.

Ég held að breytingarnar í 1. gr. séu að öllu leyti óþarfar. Þar er ekki raunverulegur vandi á ferðinni. Fólk á rétt á bótum frá Tryggingastofnun. Það eru dálítil áhöld um útlendinga sem lenda í slysi, þar sem þeir uppfylla kannski ekki skilyrðin um búsetu á Íslandi, en það er eitthvað sem dómarinn tekur sjálfsögðu tillit til þegar hann metur rétt manna til greiðslna frá Tryggingastofnun.

Ég beini því til nefndarinnar, sem mér skilst að ætli að ræða þetta mál þó að hún flytji það sjálf, milli 1. og 2. umr. væntanlega, að hún fái til sín sérfræðinga á þessu sviði, t.d. tryggingafræðinga, til að meta þetta frumvarp og þær breytingar sem gerðar eru með það að leiðarljósi að hvorki verði um oftryggingu né vantryggingu að ræða. Það er mjög mikilvægt. Við erum með vantryggingu í dag þar sem dregnar eru frá einhverjar ímyndaðar greiðslur sem aldrei koma, út af þessum galla varðandi það þegar menn falla frá og fá aldrei örorkulífeyri frá Tryggingastofnun sem samt skal dregin frá. Ég mundi leggja til að nefndin skoðaði það mjög nákvæmlega milli 1. og 2. umr.

Svo vildi ég gjarnan að þingheimur tæki sig á og reyndi að laga þann galla sem ég nefndi varðandi það að menn fái eingreiðslur og beri áhættuna sjálfir.