131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Skaðabótalög.

681. mál
[14:38]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Menn geta aðeins gengið út frá þeim lögum sem gilda hverju sinni. Þegar maður verður öryrki í dag á hann ákveðinn rétt hjá Tryggingastofnun. Sá réttur er reyndar skilyrtur, aðallega varðandi hjúskaparstöðu. En að öðru leyti liggur hann mjög nákvæmlega fyrir. Ef þetta er einstaklingur sem ekki er giftur eða í sambúð liggur fyrir hvaða rétt hann á, hvaða bætur hann muni fá, frá hvaða degi og hversu lengi hann fær þær á meðan hann er öryrki. Það ætti að vera í samræmi við þær forsendur sem menn gefa sér um við örorkumatið.

Ég get því ekki séð að neitt geti raskað þessu nema lagabreyting frá Alþingi. En lagabreyting frá Alþingi raskar líka stöðu allra annarra öryrkja ef hún er til skerðingar. Þessir aðilar ættu því ekki að vera betur eða verr settir en þeir. Menn hljóta alltaf að ganga út frá þeim lögum sem eru í gildi hverju sinni. Ég get ekki séð að menn séu vantryggðir á nokkurn máta nema að því er varðar hjúskaparstöðuna, ef þeir skyldu gifta sig eða fara í sambúð gætu bæturnar lækkað eitthvað, meira að segja umtalsvert frá Tryggingastofnun, umfram það sem metið var.

Eins og ég gat um áðan er hægt að meta þetta inn í dæmið líka, sem sagt líkurnar á því að maðurinn fari í hjúskap, þær liggja nokkuð fyrir. Það er vitað hve stór hluti af hverjum árgangi er í hjúskap og má reikna með því inn í dæmið. Það geta tryggingafræðingar gert.