131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Skaðabótalög.

681. mál
[14:41]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara fyrirspurninni sem að mér er beint verð ég fyrir mitt leyti að segja að ég sé ekki að það sé mögulegt sem hv. þingmaður hreyfði í máli sínu, þ.e. að bæta tjónþolum þann mun sem hefur orðið. Alþingi þarf bara einfaldlega að ganga þannig frá löggjöfinni að hún nái í framkvæmd þeim tilgangi sem til var ætlast. Dæmin sem ég rakti áður voru byggð á hæstaréttardómum. Ég sé ekki fyrir mér neina einfalda leið til að bregðast við þessari stöðu. Að því marki sem í fyrirspurninni fólst sú hugleiðing hvort hægt væri að gera þeim sem skaðabótaábyrgðina báru að greiða mismuninn þá sé ég ekki fyrir mér að það sé hægt, einfaldlega vegna ákvæða stjórnarskrárinnar.

Þetta er í sjálfu sér ekkert eina dæmið sem við höfum þar sem lögum er breytt til að koma til móts við sanngirniskröfur og sanngirnissjónarmið. Ég held að það sé ómögulegt að elta ólar við það tímabil sem liðið er til þess að bæta upp fyrir þann tíma sem lögin voru í gildi.