131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Skaðabótalög.

681. mál
[14:52]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar rætt er um skaðabætur er það oftast þannig að það er einn einstaklingur sem á að greiða öðrum skaðabætur og þá er mjög eðlilegt að menn borgi eingreiðslu til þess að sá sem á að fá bæturnar sé ekki háður því um aldur og ævi eða lengi að hinn sé gjaldhæfur, sé á lífi og þess háttar til þess að greiða og þess vegna hafa menn ákveðið eingreiðslur. Sömuleiðis hjá tryggingafélögum. Tryggingafélög geta hætt starfsemi, þau geta lagst af, þau geta orðið gjaldþrota. Þess vegna er verið með eingreiðslur.

Það sem ég er að hugsa um er að ef tryggingafélögin greiddu eingreiðslu inn í sjóð þá væri komin ríkisábyrgð á hana. Ég reikna með að sá sjóður yrði með ríkisábyrgð og þá þarf ekki lengur að hafa eingreiðslur. Menn fá bæturnar.

Varðandi oftryggingu og að hvorki sé bætt meira né minna þá er það þannig í dag að örorka er yfirleitt byggð á ákveðnu mati á líkum. Menn vita ekki nákvæmlega hvað gerist í framtíðinni, maðurinn gæti dáið daginn eftir eða hann gæti orðið hundrað ára. Það liggur ekkert fyrir, þetta byggir allt á ákveðnum líkum og það er tjónþolinn sem ber áhættuna af líkunum, þ.e. ef hann verður 100% öryrki daginn eftir slysið, þá er hann vantryggður, fær sem sagt of lítið. Ef hann verður aldrei öryrki, segjum að það sé slíkt dæmi, þá hefur hann grætt og það er ekki meiningin. Í þessu örugga tryggingasjóðskerfi kæmi það einmitt ekki til.

Í seinna andsvari, sem ég vona að ég fari í, ætla ég að bera blak af Hæstarétti.