131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Skaðabótalög.

681. mál
[14:54]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að örorka byggir á líkum. Örorka er metin af læknum sem meta læknisfræðilega örorku og sem bætur sem tryggingastærðfræðingar reikna venjulega út frá grundvelli launa. Þetta er allt saman rétt hjá hv. þingmanni. Í skaðabótalögunum eru síðan ákveðnar reglur sem leiða til skerðingar, t.d. miðað við aldur og aðra þætti sem teknir eru til greina við útreikning bóta. Það er ýmislegt þarna sem kemur til skerðingar.

Varðandi eingreiðsluna og það kerfi sem við höfum komið okkur upp, þá er það alveg rétt hjá hv. þingmanni að eins og skaðabótalögin eru framkvæmd og kveða á um í dag, þá er miðað við að tjón tjónþolans til framtíðarinnar sé reiknað út í eitt skipti fyrir öll og greidd út eingreiðsla. Og það er líka alveg rétt sem hv. þingmaður segir og hefur áhyggjur af að maður sér allt of mörg dæmi þess að fólk sem orðið hefur fyrir áföllum og verið reiknuð örorka og fengið bætur, hefur farið illa út úr því og eytt peningum sínum hratt og illa. Það er kannski ástæða til þess, án þess að ég sé að mæla fyrir því, að taka það kerfi til einhverrar endurskoðunar en við verðum þá að gera það að vel yfirlögðu ráði og leggja í það mikla vinnu.

Ég sagði í ræðu minni að það getur vel verið að það sjóðafyrirkomulag sem hv. þingmaður er að benda á sé hentugra en núverandi kerfi en þetta frumvarp lýtur ekki að slíkri heildarendurskoðun á skaðabótalögunum. Það snýst bara um að leiðrétta ákveðna ósanngirni sem (Forseti hringir.) núgildandi lög mæla fyrir um.