131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:17]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og staða verkefnanna er í dag starfar náttúrlega stór hluti starfsfólksins vítt og breitt um landið. Stærri parturinn af stofnuninni starfar með yfirdýralækni, héraðsdýralæknar og starfsmenn þeirra, þannig að mikið af fólkinu vinnur á landsbyggðinni í dag.

Það má líka spyrja sig hvar höfuðstöðvar slíkrar stofnunar ættu að vera í framtíðinni. Um það hefur engin ákvörðun verið tekin í frumvarpinu. Yfirdýralæknisembættið hefur starfað í Reykjavík, aðfangaeftirlitið og veiðimálastjóri einnig. Kjötmatsformaður hefur verið á Akureyri. Engar breytingar eru áætlaðar hvað það varðar. Þeir starfsmenn sem hafa annast búvörusamningana og verið hjá Bændasamtökum eru á Hótel Sögu í dag. Þeir munu eðlilega flytjast þaðan.

Hvað þessi stóru atriði varðar hafa því engar ákvarðanir verið teknar enn þá, en þetta er auðvitað starfsemi sem tilheyrir að stórum hluta landsbyggðinni þó hún snúi líka hér að þeirri miklu vinnu að skapa neytendum öryggi og standa vörð, eins og aðfangaeftirlitið sem fylgist með innflutningi og yfirdýralæknisembættið.

Þetta er því staðan í dag. Hver hún verður í framtíðinni verða menn auðvitað að vinna úr.