131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:19]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er líka spurningin: Hvar verður stofnunin staðsett? Ég hefði talið mjög áhugavert ef hæstv. landbúnaðarráðherra vildi hugleiða það í fullri alvöru hvort stofnun sem á að þjóna landbúnaðinum, sem er að stærstum hluta staðsettur utan höfuðborgarsvæðisins, hvort ekki væri rétt að finna stofnuninni stað (Gripið fram í.) utan höfuðborgarsvæðisins, hv. þm. Helgi Hjörvar. Ég held að það væri ákaflega vel til fundið og vil beina því til hæstv. landbúnaðarráðherra að það verði hugleitt í þeirri endurskipulagningu sem hér er lögð til að stofnuninni verði fundinn staður utan Stór-Reykjavíkursvæðisins.