131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:40]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi ræða var ágætt innlegg í það hvar eigi nú að setja niður þessa stofnun. En mér fannst einhvern veginn að í henni kæmi fram ýmislegt sem benti til þess að mannauðurinn og allt sem til þyrfti væri kannski meira á öðrum stað en hv. þingmaður benti á, þ.e. á Hvanneyri. Ég ætla ekki að draga úr því eða útiloka það að það geti orðið niðurstaða sem hv. þingmaður var að nefna. En ég tel að það þurfi bara að skoða þetta mál mjög vandlega með tilliti til þess hvar sé skynsamlegast að setja þetta niður. Þá hlýtur aðalstaður landbúnaðarins í landinu að verða til umhugsunar og athugunar hvað þetta varðar. Hins vegar fannst mér koma fram gagnrýni hjá hv. þingmanni sem bendir til þess að honum finnist að málið hafi í heild ekki verið skoðað nógu mikið og að sumt af því sem þessi stofnun eigi að annast eigi kannski ekkert endilega heima í henni. Ég tel því að eitthvað sé eftir fram undan til þess að fara yfir í sambandi við þetta mál og að málið hafi a.m.k. ekki verið undirbúið mjög nákvæmlega í höndum þeirra þingmanna sem styðja stjórnarflokkana og eru kosnir til þings af Suðurlandi.

Ég vildi koma þessu að hér og spyrja hv. þingmann að því hvort honum finnist ekki alveg ástæða til þess að bera a.m.k. þessa hluti mjög vandlega saman.