131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:46]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar það mál sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi hér vil ég bara taka fram að þegar stjórnarfrumvörp eru lögð fram þá höfum við ekki komið að undirbúningi þeirrar lagasetningar en okkur gefst tækifæri til að ræða þingmálin við 1. umr. áður en þau fara til nefndar. Ég treysti hv. landbúnaðarnefnd fullkomlega til að fara yfir þá umræðu sem hér verður í dag og að vinna svo úr málinu ásamt hæstv. landbúnaðarráðherra. Ég er ekki að koma með neinn klofning í stjórnarliðið, langt í frá, þetta eru bara eðlileg, lýðræðisleg vinnubrögð sem við eigum að virða hér.

Ég vona innilega að Landbúnaðarháskóla Íslands farnist vel. Ég átti aðild að því að Garðyrkjuskóli ríkisins var settur undir þá stofnun og að þær stofnanir sem áður voru, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Garðyrkjuskóli ríkisins yrðu settar undir eina stofnun. Ég held að það hafi verið skynsamlegt á þeim tíma og muni sannast í framtíðinni að hafi verið rétt ákvörðun.