131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:57]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi skólann á Hólum. Mig langaði að heyra betur frá hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur um það. Hólaskóli er ekki háskóli. Það eru ekki til lög um háskólann á Hólum eftir því sem ég best veit í dag. Ég vil spyrja hana frekar um það hvort hún sjái ekki samlegðaráhrif og styrk í því fyrir landbúnaðinn — horfum aðeins fram hjá hagsmunum héraðanna — að hafa einn öflugan háskóla. Það háttar þannig til, hv. þingmaður, að ég á sæti í menntamálanefnd og Samfylkingin hefur talað mikið um menntamál í þessum ræðustól í vetur og telur að allt sé í upplausn og vandræðagangi í menntamálum. Mér finnst einkennilegt að heyra fulltrúa Samfylkingarinnar tala hér um að ekki beri að sameina skóla. Það var talað um það í mörgum ræðum hér að ekki mætti sameina Háskóla Reykjavíkur og Tækniháskólann. Það er þá framhald af þeirri umræðu sem Samfylkingin er að kynna hér. Það væri ágætt að fá að heyra frekar um það hvort Samfylkingin sé almennt á móti því að styrkja háskólastigið í landinu, m.a. á þessu sviði sem annars staðar.