131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[15:59]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Samfylkingin talaði ekki gegn því að Tækniháskólinn sameinaðist Háskólanum í Reykjavík, hins vegar talaði hún gegn því formi sem lagt var til að haft yrði á hinum nýja skóla.

Skoðun mín er sú að efla eigi skólastarf á Íslandi og fjölga háskólum í landinu. Ég hef m.a. talað mjög skýrt fyrir því að stofnsettur verði háskóli á Vestfjörðum. Ég held að það sé eitt það allra besta sem hægt er að gera fyrir byggðir í landinu og fyrir þekkingarstig í landinu, en því miður hefur það farið minnkandi í tíð núverandi ríkisstjórnar að koma á fót nýjum skólum.

Ég ráðlegg hv. þm. Kjartani Ólafssyni að kynna sér tölur yfir menntunarstig fólks á vinnumarkaði hér á landi. Því miður hefur hlutfall þeirra sem hafa eingöngu grunnskólapróf farið hækkandi á síðustu árum. Það er nú komið yfir 42% meðal þeirra sem eru á vinnumarkaði og er til hreinna vansa fyrir núverandi ríkisstjórn hvernig staðið er að málum.

Ég hef þá skoðun að efla eigi háskólann á Hólum og gefa því duglega og vel menntaða fólki sem þar starfar enn betra færi á að sýna hvað í því býr og hvert það vill stefna með sinn skóla.