131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[16:00]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í máli hv. þingmanns kom fram þetta með héraðsdýralæknana, sem hér hefur aðeins komið fram í umræðunni og verið rætt um. Þeir eru í dag 15 talsins og eru skipaðir embættismenn af ráðherra. Ágætt er að það komi fram að á þessu verður breyting samkvæmt frumvarpinu. Þeir verða ekki áfram skipaðir sem embættismenn heldur ráðnir af forstjóranum sem starfsmenn hinnar nýju stofnunar. Það er í samræmi við nútímavinnubrögð á þessum sviðum.

Hv. þingmaður ræðir talsvert og gagnrýnir ríkisstjórnina. Ég vil segja fyrir mig að ég held að ríkisstjórnin hafi unnið stórgott verk og mikil þróun hefur verið í landinu. Um allt land nánast er uppgangur og ný sóknartækifæri. Það hefur verið hlutverk mitt sem landbúnaðarráðherra að stofna — ég vil taka skógræktarverkefnin sem dæmi, sem hafa kallað heim og flutt út á land háskólamenntað fólk fyrir utan það sem hefur verið að gerast í skólunum, bæði þann mikla uppgang sem er á Hólum í Hjaltadal og í Landbúnaðarháskóla Íslands, svo ég taki dæmi. Menn þurfa því ekki að hafa stór orð um það, þróunin er augljós í þessum efnum. Störf hafa verið að fara út á land hvað landbúnaðarráðuneytið varðar og tel ég mjög mikilvægt að fylgja því eftir eins og ég lýsti í upphafsræðu minni.