131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[16:25]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er rætt um sameiningu stofnana á vegum landbúnaðarins í eina stofnun. Ég tel vert að skoða þá möguleika og einnig, eins og ég sagði fyrr í andsvari, að fara yfir reynslu af öðrum sameiningum stofnana, m.a. á vegum umhverfisráðuneytisins, sem ég þekki til.

Umræðan hér hefur m.a. snúist um staðsetningu stofnunarinnar. Mér finnst að þegar menn fari að skoða staðsetningu stofnunarinnar, hinnar nýju, þá eigi að hafa í huga orð hæstv. forsætisráðherra. Hann sagði að nú væri komið að Norðvesturkjördæminu. Ég spyr hæstv. landbúnaðarráðherra: Hvenær er komið að Norðvesturkjördæminu og hvað meinti hæstv. forsætisráðherra með þeim orðum?

Við höfum tvo góða kosti fyrir stofnunina á því svæði, t.d. á Hólum. Það er ekki rétt sem hér kom fram, að Hólaskóli væri ekki háskóli. Hann er með þrjár brautir og útskrifar nemendur. Ég er viss um að hæstv. landbúnaðarráðherra veit af því og á örugglega eftir að leiðrétta þann stjórnarþingmann sem stóð í þeirri trú.

En það er annar kostur sem ég tel ekki síður vert að skoða — við .þurfum náttúrlega að skoða þetta með hagsmuni landbúnaðarins og þjóðarheildarinnar fyrir augum en ekki eingöngu út frá þeim starfsmönnum sem vinna á stofnuninni eins og er — og það er Hvanneyri. Ég tel einnig að við ættum að skoða þann kost að flytja sjálfan hæstv. landbúnaðarráðherra með öllu sínu ráðuneyti upp á Hvanneyri. Það yrði ein besta vörnin fyrir því að landbúnaðarráðuneytið, sem á í vök að verjast, verði ekki lagt niður. Það væri fróðlegt að fá að heyra það hjá hæstv. ráðherra hvort nokkuð sé því til fyrirstöðu að hæstv. ráðherra flytji ráðuneytið í Borgarfjörðinn. Ég tel að sú staðsetning og samlegðaráhrif sem þar næðust fram, með Landbúnaðarstofnun, Landbúnaðarháskóla og ráðuneyti þar, yrðu óumdeild. Það mundi enginn hnika því ráðuneyti, eins og er í umræðunni nú, að búa til eitt atvinnuvegaráðuneyti. En þetta mundi skapa ákveðinn frið um ráðuneytið. Ég tel einmitt að gaumgæfa eigi þetta.

Mér finnst það skipta máli, þegar menn setja saman nýja stofnun, að menn hafi meiri framtíðarsýn en fram kemur í þessu frumvarpi, hvað menn vilja í raun og veru. Ætla menn að fækka héraðsdýralæknum eins og gefið var í skyn? Það verður að koma skýrt fram, finnst mér. Ég tel vafasamt að höggva í þann knérunn enn á ný, að fækka störfum á landsbyggðinni.

Það er mjög sárgrætilegt að hlýða á hæstv. ráðherra flytja ræðu um bjartsýnina á landsbyggðinni og fleira í þeim dúr. Auðvitað er bjartsýnt fólk á landsbyggðinni en staðreyndirnar blasa aftur á móti við. Ég bý á Sauðárkróki og fer þangað á morgun. Ég er þokkalega bjartsýnn en þetta snýst ekki um það. Málið snýst um atvinnutækifæri, hæstv. ráðherra. Nú hefur ráðherra tækifæri til að skrá nafn sitt á spjöld sögunnar með því að flytja ráðuneytið og þessa stofnun út á land. Mér finnst að hæstv. ráðherra eigi að skoða það, sérstaklega í ljósi þeirra orða hæstv. forsætisráðherra að nú væri komið að Norðvesturkjördæmi.

Það er margt sem ber að hafa í huga þegar verið er að slá saman stofnunum og eins ég nefndi fyrr í ræðu minni á að læra af reynslunni af þeim stofnunum sem þegar hafa verið sameinaðar, t.d. var Umhverfisstofnun sameinuð með þeim orðum að flytja ætti verkefni út á land og sameinuð var Náttúruvernd ríkisins, Veiðistjóraembættið, dýrverndunarsvið, hreindýrasvið og Hollustuvernd ríkisins. En staðreyndin er því miður sú, eins og hv. þm. Drífa Hjartardóttir kom inn á, að raunin hefur verið önnur. Verkefnum hefur ekki fjölgað á landsbyggðinni.

Ég þekki það í Norðvesturkjördæmi að sá eftirlitsmaður sem var að vinna að verkefnum þar fyrir Náttúruvernd ríkisins að verkefnunum fækkaði hjá viðkomandi starfsmanni, mjög góðum starfsmanni. Það er eins og verkefnin sogist suður á bóginn. Þessu eigum við stjórnmálamenn náttúrlega að gæta að, því að því var ekki stefnt í upphafi. Það var allt önnur hugsun á bak við að slá saman stofnununum. Það var einmitt að flytja verkefnin út á land.

Það er annað sem við verðum að huga að þegar verið er að sameina stofnanir að það er alltaf verið að sameina stofnanir innan hvers ráðuneytis. Það er ekki litið víðar yfir sviðið og skoðað hvort það eigi að stokka upp og flytja t.d. ákveðin verkefni á milli ráðuneyta. Ég vona að hæstv. ráðherra sé að hlýða á þó að hann sé farinn úr salnum, en ég tel einmitt að skoða eigi að flytja eftirlitsþáttinn úr landbúnaðarráðuneytinu vegna þess að hæstv. ráðherra hefur gengið fram fyrir skjöldu og fækkað sláturhúsum stórlega. Það eru því orðnir fáir eftirlitsstaðir og e.t.v. réttara að þetta færist til annarra stofnana.

Það er líka annað sem ber að hafa í huga hvað það varðar, að þarna er um atvinnuvegaráðuneyti að ræða sem fylgist með matvælaöryggi og öryggi almennings. Þar geta hagsmunir skarast og hafa gert það. Það er einmitt miklu nærtækara og eðlilegra að þau verkefni færist yfir til umhverfisráðuneytisins, sérstaklega vegna þess að ráðherra hefur verið það duglegur að fækka þeim stöðum sem á að hafa eftirlit með og innleitt mjög strangar reglur. Því finnst mér eigi að skoða það. Síðan má flytja önnur verkefni t.d. frá umhverfisráðuneytinu yfir til landbúnaðarráðuneytisins þar sem þeir hafa sérþekkingu á dýraverndunarmálum.

Fram hefur komið að sá sem starfar nú sem yfirdýralæknir hefur mjög mikinn metnað á sviði dýraverndarmála og lét hafa það eftir sér að metnaðurinn væri þvílíkur að hann léti ekki stjórnsýsluna þvælast fyrir sér ef hann þyrfti að grípa inn í til verndar dýrum. Þar þarf einmitt að taka til hendinni og vegna þess að við ræðum hér eftirlit og dýravernd og verið er að koma þessu í nýtt ráðuneyti væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra segði okkur frá því hvað liði reglugerð um flutning á sláturdýrum. Mig minnir að hæstv. ráðherra hafi boðað að hún væri á leiðinni og nú þegar ráðherra hefur komið málum svo fyrir, fækkað sláturhúsum þvílíkt að verið er að flytja gripi af Austfjörðum og alla leið á Sauðárkrók er spurning hvort hann hafi komið því í verk að útbúa þá reglugerð eða lögleiða hana.

Að lokum vonast ég til þess að hæstv. ráðherra taki þetta til skoðunar, sérstaklega staðsetninguna á stofnuninni og hugleiði orð hæstv. forsætisráðherra að nú sé komið að Norðvesturkjördæmi og stofnunin mundi blómstra á Hvanneyri.