131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[16:55]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú fram komið frumvarp til laga um Landbúnaðarstofnun, frumvarp sem hæstv. landbúnaðarráðherra mælir fyrir. Mér sýnist við lestur þessa frumvarps að hér eigi að fara að setja á fót enn eina eftirlitsstofnunina á Íslandi. Það bætist sem sagt enn ein rósin í hnappagatið á íslenska eftirlitsiðnaðinum sem er nú orðinn ansi stór. Hér er þó reyndar ekki um að ræða nein ný störf í sjálfu sér heldur er verið að sameina undir einn hatt eða undir eitt heiti, í eina stofnun, fjöldamörg embætti, ef svo má segja, stöðugildi sem áður hafa tilheyrt hinum ýmsu smástofnunum innan geira landbúnaðarins.

Í sjálfu sér er, að ég tel, jákvætt að þetta sé þó gert. Mig minnir að ég hafi reyndar í fyrra þegar við ræddum stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands einmitt gagnrýnt það að landbúnaðargeirinn væri tvístraður í allt of margar smástofnanir og það væri löngu kominn tími til að hagræða og taka til í þessum ranni og jafnvel um leið leita leiða til meiri skilvirkni og sparnaðar. Ég vona svo sannarlega að það takist með þessa Landbúnaðarstofnun. Ég hef í sjálfu sér ekki margar athugasemdir við þetta eins og það lítur svona til að byrja með alla vega. Hér er náttúrlega sett í gang mikið ferli. Heilmikill bandormur fylgir þessu frumvarpi þar sem verið er að breyta ótal lögum til þess að geta búið til þessa stofnun. Reyndar kemur það ekki á óvart því stjórnsýslukerfi landbúnaðarins hefur verið mjög flókið fram til þessa.

Ég vil þó taka undir gagnrýni hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar á 3. gr. þar sem skilgreint er mjög nákvæmlega hver bakgrunnur forstjóra þessarar stofnunar skuli vera. Ég tel að þessi bakgrunnur sé skilgreindur allt of þröngt og að ekkert réttlæti það að endilega þurfi að vera hér menntaður dýralæknir forstjóri með æðri prófgráðu. Þó vel megi vera að sá grunur hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sé réttur að hér sé kannski verið að reyna að skilgreina forstjórastöðuna fyrir ákveðinn ágætismann — ég veit ekkert um það, skal ekkert um það segja — þá tel ég að slíkt ætti að vera alger óþarfi og í raun er alger fásinna að binda þetta í lög með þessum hætti. Góður forstjóri getur haft ýmiss konar bakgrunn og þarf ekki endilega að vera dýralæknir til að stjórna svona stofnun. Hann gæti allt eins verið til að mynda menntaður fiskifræðingur, því að ég rek augun í það að starfsemi veiðimálastjóra m.a. á að falla undir þetta og hann hefur haft með lax- og silungsveiði að gera. Við sjáum líka að hér á að vera eftirlit með fiskeldi. Það á að vera eftirlit hér með ýmiss konar plöntuvörum þannig að þess vegna, þ.e. ef gerðar eru kröfur um að forstjóri þessarar stofnunar skuli hafa einhvern líffræðilegan bakgrunn, þá gæti hann allt eins verið menntaður í almennri líffræði en þarf ekki að vera sérmenntaður dýralæknir með doktorspróf. Nóg um það. Ég reikna með því, virðulegi forseti, að þetta verði rætt í þaula í landbúnaðarnefnd. Frumvarpið fer þangað núna og verður að sjálfsögðu skoðað með jákvæðum en gagnrýnum huga. Við skulum sjá hvað setur.

Mig langar síðan aðeins, virðulegi forseti, að víkja örfáum orðum að því hvar slík stofnun ætti hugsanlega að vera. Það kemur fram í 4. gr. að það er svona hálft í hvoru opnað á það, að mér sýnist, að þessi stofnun geti í raun verið með starfsstöðvar eða útibú víða um land. En mig langar til að nota tækifærið, virðulegi forseti, og reyna að brýna hæstv. landbúnaðarráðherra til dáða og fá hann til þess að hugsa svolítið heildstætt og stórt. Hér hafa menn áður bent á möguleikann á því að þessi stofnun fengi aðsetur að Hvanneyri í Borgarfirði þar sem nú þegar er aðsetur Landbúnaðarháskólans. Þó ég sé reyndar ekki þingmaður þess kjördæmis vil ég samt fá að tjá þann kjark, ef svo má segja, að það væri kannski ekki vitlaus hugmynd að íhuga að þessi nýja stofnun, Landbúnaðarstofnunin, fengi aðsetur í því umhverfi og að við reyndum til framtíðar að marka þá stefnu að Hvanneyri verði eins konar allsherjarmiðstöð fyrir íslenskan landbúnað.

Í framhaldi af því langar mig til að viðra þá hugmynd hvort það væri ekki einmitt rétt að sjálft landbúnaðarráðuneytið, sem nú er staðsett við Sölvhólsgötu niðri við höfn í Reykjavík, verði líka flutt út á land í heilu lagi, til að mynda að Hvanneyri. (Gripið fram í.) Ertu ekki í Suðurkjördæmi, drengur? segir hv. þingmaður Kjartan Ólafsson, félagi minn úr Suðurkjördæmi.

Það er stundum þannig þegar maður veltir slíkum hlutum fyrir sér að þá þarf maður frekar að hugsa um það sem er vænlegt fyrir þjóðina heldur en einstök kjördæmi og ég hygg að sú mikla fjárfesting sem þegar hefur verið lögð í Hvanneyri muni skila sér betur ef við færum að hugsa hlutina með þeim hætti. Og það er kannski, eins og ég sagði, kominn tími til að við íhugum það að flytja hreinlega heilu ráðuneytin út á land. Ég sé í rauninni ekki neinar stórkostlegar forsendur fyrir því að atvinnuvegaráðuneytin þurfi endilega að vera staðsett í Kvosinni í Reykjavík, og kannski frekar, ef eitthvað er, margt sem mælir gegn því frekar en hitt.

Nýlega var hæstv. sjávarútvegsráðherra að boða að hann ætli að flytja stóran hluta af veiðieftirliti Fiskistofu og koma því fyrir í sjávarútvegsbæjum víða um land. Þá mætti einmitt hugsa sér hvort ekki væri ekki ráð að taka sjávarútvegsráðuneytið og flytja það í heilu lagi og koma því niður í einhverjum sjávarútvegsbæ úti á landi. Það mætti kannski nefna staði eins og Akureyri eða Reykjanesbæ fyrir það ágæta ráðuneyti. Fjarskiptin eru öll orðin með þeim hætti í dag að ég tel að hægt sé að reka skilvirka og góða stjórnsýslu úti á landsbyggðinni á tiltölulega auðveldan hátt, ég tala nú ekki um stjórnsýslu sem snýr að málefnum landsbyggðarinnar, og þegar upp er staðið þurfi ekki vera neitt miklu dýrara að gera það en að múra þetta allt niður í miðborg Reykjavíkur. Nóg er samt.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mál mitt mikið lengra um þetta frumvarp. Eins og ég sagði áðan fer það nú til landbúnaðarnefndar og við munum eflaust fá ágætar umsagnir um það og taka það síðan til gaumgæfilegrar og jákvæðrar skoðunar en jafnframt gagnrýnnar skoðunar.