131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[17:06]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fæ í raun og veru ekki skilið að það skipti höfuðmáli í landi eins og Íslandi, sem er þó ekki stærra land, hvort 50% af landbúnaðarframleiðslu landsmanna eigi sér stað í Suðurkjördæmi eða hvort mjög stór hluti af landbúnaðarframleiðslu landsmanna og til að mynda stór partur af hefð í landbúnaðarrannsóknum á Íslandi eigi sér stað í Borgarfirði. Það er ekki langur vegur úr Borgarfirði austur á Selfoss, sérstaklega eftir tilkomu Hvalfjarðarganganna. Það er ekki langur vegur að aka þá leið.

Ég átta mig ekki alveg á hvað hv. þm. Kjartan Ólafsson er að fara. Það eina sem vakir fyrir mér er að reyna að velta upp hugmyndum um hvað gæti verið hagstætt að gera í þessari stöðu. Þá er ég að tala um að þessi stofnun verði að hluta til á Hvanneyri eða kannski að öllu leyti, ég veit ekkert um það. Þetta er að sjálfsögðu ávallt útfærsluatriði.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á að Garðyrkjuskólinn er að Reykjum í Ölfusi, og ég veit ekki betur en hann verði þar áfram að stórum hluta, að sá rekstur sem þar hefur verið verði þar áfram að stórum hluta. Í sjálfu sér er því ekki verið að tala um einhverja stórkostlega tilfærslu. Þessi stofnun, ef af verður, Landbúnaðarstofnun, verður ekki mjög stór, talað er um að þar verði einhverjir tugir stöðugilda eins og málið lítur út núna. Eins og það er sett upp fyrir okkur í greinargerð núna er talað um að stofnunin muni árlega velta eitthvað í kringum 500 millj. kr. Ég segi fyrir mína parta og hef sagt það áður að mér finnst eftirlitsiðnaðurinn vera orðinn nægilega stór á Íslandi og vona að þessi stofnun verði ekki miklu stærri en það að okkur takist að koma böndum á hana, að hún vaxi ekki út yfir stokka og steina eins og til að mynda Fiskistofa gerði, en átti aldrei að gera þegar lagt var af stað, og það vita nú allir hvernig hún er orðin í dag. Hún er í raun og veru orðin allt of stór og orðin alveg gríðarlegt bákn. Sjálfstæðismenn ættu að vera talsmenn þess að (Forseti hringir.) halda niðri umsvifum í ríkisrekstri.