131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Landbúnaðarstofnun.

700. mál
[17:08]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil við lok umræðunnar þakka fyrir hana. Margir hafa tekið til máls og farið yfir frumvörpin og rætt hugsjónir sínar, drauma og væntingar.

Hér hefur auðvitað margt borið á góma eins og gerist í umræðum. Þingið er að því leyti sérstakt og það er skaði auðvitað að menn eru ekki við umræðu frá upphafi heldur stendur maður hér eins og við brúsapall og verður að flytja sömu ræðuna aftur og aftur til þess að upplýsa menn um staðreyndir. Menn koma inn í umræðuna óþreyttir, hafa farið á aðra fundi á milli og koma svo með sömu athugasemdir og fluttar voru nokkrum mínútum áður. Við þessu er ekkert að gera, þetta er hið sérstæða þing sem við búum við, þó að það væri auðvitað æskilegra að menn væru við umræðu sem þeir ætla að taka þátt í frá upphafi og fylgdust með henni.

Hér hefur margt komið fram hjá mönnum um kröfur varðandi forstjóra fyrirtækisins, að hann verði skilgreindur sem dýralæknir með æðri menntun. Auðvitað getur það orkað tvímælis að setja það í lögin. Hér hefur því verið haldið fram að verið væri að sérsníða búning fyrir ákveðinn mann, sem er auðvitað rangt. Fyrst og fremst varð þetta niðurstaðan þegar við fórum að hugsa um málið. Yfirdýralæknisembættið er auðvitað stórt í hinu nýja fyrirtæki, Landbúnaðarstofnun, sem vonandi verður að veruleika, og mörg önnur verkefni snúa beint að þeirri fagþekkingu sem slíkir menn búa yfir, hvort sem það er aðfangaeftirlitið, veiðimálastjóri eða margt annað. En ég tek fram að auðvitað fer landbúnaðarnefnd yfir það og við áfram með henni í landbúnaðarráðuneytinu og skoðum það faglega hvernig þetta verður.

Það kom fram í máli hv. þm. Steingríms Sigfússonar og fleiri áður, og ég hafði svarað því hér varðandi héraðsdýralæknana, að verði frumvarpið að lögum verði þeir ekki skipaðir af ráðherra sem embættismenn til starfa sinna, heldur verði þeir ráðnir af nýjum forstjóra. Þetta er nútíminn og hinum 15 héraðsdýralæknum verður auðvitað eins og öðrum boðin störf. Þeir eru 15 talsins í dag og fjórir sérgreinadýralæknar sem starfa að málefnum alifugla-, svína-, hrossa- og fisksjúkdóma. Það liggur alveg skýrt fyrir að hugsunin er þessi.

Nú hefur komið fram hér, ekki síst hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni, varðandi þau verkefni sem Bændasamtökin hafa unnið að við búfjársamninga og framleiðslustýringu í landbúnaði, forðagæslu og eftirlit með aðbúnaði búfjár, að það samrýmist ekki störfum samtakanna að fara með framleiðslustýringuna. Formaður Bændasamtakanna og framkvæmdastjóri hafa átt fund með mér og þeir vilja losna undan þessum verkefnum því að samtökin eru auðvitað stéttarfélag og þeim finnst að þeir séu að taka að sér verkefni sem nær sé að landbúnaðarráðherra og ráðuneytið beri alfarið ábyrgð á. Það er nú skýringin á því. En ég tek undir með hv. þingmanni að þessi störf hafa verið unnin af mikilli fagmennsku og ég held að aldrei hafi borið skugga á þau, þannig að undir það vil ég taka.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson kom hér í löngu máli að ýmsu sem hann ræddi og þar á meðal um Hóla í Hjaltadal. Hólar í Hjaltadal eru lögum samkvæmt ekki háskóli, skólinn er háskólastofnun í dag. Það er vilji til þess og verið að skoða það að gera Hólaskóla að háskóla. Hólaskóli kennir á háskólastigi en útskrifar með öðrum. En viljinn er sá að Hólaskóli verði háskóli og standi sem slíkur.

Hv. þingmaður spurði hvenær komið væri að Norðvesturkjördæmi. Það er nú komið að því kjördæmi, a.m.k. í störfum landbúnaðarráðuneytisins. Ég nefni Landbúnaðarháskólann sem hér hefur borið mjög á góma, og Hólaskóla og fleiri verkefni.

Hv. þingmaður spurði hvort ekki væri rétt að fara með landbúnaðarráðuneytið á Hvanneyri og öll þau verkefni. Það vita allir að ráðuneytin er samkvæmt reglugerð staðsett í höfuðborginni. Mér finnst það ekki vera neitt eilífðarverkefni að þannig eigi mál að vera. Ég man eftir því þegar ég heimsótti frændur okkar, Íra, að þá var það mikið byggðamál hjá þeim að flytja ráðuneytin út á landsbyggðina. Það væri ósköp eðlilegt að styrkja landbúnaðarráðuneytið, fela því matvælaöryggið og byggðamálin til dæmis og staðsetja ráðuneytið, eins og ég hef oft sagt, úti á akrinum. Það hefði verið þægilegra fyrir mig að hafa það á Selfossi þann langa tíma sem ég hef verið landbúnaðarráðherra og stutt að fara.

Ég get alveg tekið undir þessa hugsun, að stjórnmálamenn og löggjafarþing eigi að fara yfir það hvort binda eigi í reglugerðum að ráðuneyti séu endilega staðsett í höfuðborginni.

En ég vil taka fram, af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon taldi frumvarpið einfalt og ekki flókið, að ég tel prýðilegt að hafa frumvörp ekki flókin. Hins vegar liggur það fyrir að forstjóri þessa fyrirtækis ræður og rekur starfsfólk. Það er formið á því, svo að það sé alveg skýrt.

Að lokinni þessari umræðu fer málið til umfjöllunar í landbúnaðarnefnd. Ég treysti landbúnaðarnefnd til að taka við þessu máli opnum huga og helst að klára það. Það er mikilvægt að klára það á þessu þingi. Ég held að í frumvarpinu sé fólgin hagræðing. Eins og hér hefur komið fram er ekki verið að stofna nýtt eftirlit heldur verið að hagræða og búa til sterkari stofnun sem á að geta staðið betur að þeim mikilvægu verkefnum sem þingið hefur falið þeim embættum sem sameinast hér í eitt fyrirtæki.