131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Eldi sláturdýra, slátrun og gæðamat sláturafurða.

726. mál
[17:19]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, með síðari breytingum, á þingskjali 1084.

Hæstv. forseti. Í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997 er kveðið á um það með hvaða hætti gjald fyrir þá heilbrigðisskoðun sem fram fer í sláturhúsum eftir ákvæðum III. kafla laganna er innheimt. Eins og fyrirkomulagið er nú samkvæmt gildandi lögum er eftirlitsgjaldið innheimt sem ákveðin krónutala á hvert kíló kjöts, nánar sundurgreint eftir tegundum, og rennur það í sjóð í vörslu landbúnaðarráðherra. Einnig kemur fram í 11. gr. laganna að eftirlitsgjaldið skuli miðast við raunkostnað og sé ætlað til þess að standa straum af heilbrigðiseftirliti kjötskoðunarlækna.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hætt verði að innheimta gjald fyrir heilbrigðiseftirlit eftir ákveðinni krónutölu á hvert kíló kjöts. Þess í stað verði innheimta heilbrigðiseftirlitsgjaldsins byggð á gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra setur. Áfram er gert ráð fyrir því að gjaldið taki mið af raunkostnaði við eftirlitið og skal gjaldskrá byggjast á því. Í núgildandi lögum þykir ekki nægilega vel tryggt að gjaldtaka sem miðast við fasta krónutölu endurspegli raunverulegan kostnað við eftirlitið. Ekki þykir heldur hentugt að breyta þurfi lögum ef kostnaður eykst eða minnkar við eftirlit og er talið að með því að heimila ráðherra að setja gjaldskrá um eftirlitið sé betur hægt að endurspegla raunverulegan kostnað þess og bregðast við hækkunum og lækkunum á raunkostnaði. Enn fremur er ljóst að sláturleyfishafar ættu að hafa betri upplýsingar og sundurliðun á því til hvaða þátta eftirlitsins eftirlitsgjald sem þeir greiða rennur.

Með frumvarpinu er einnig ætlunin að skilgreina til hvaða þátta heilbrigðiseftirlitið nær, en í núgildandi lögum er landbúnaðarráðherra falið að setja nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins og um innheimtu kostnaðar fyrir það. En eftirlitið sjálft er ekki skilgreint í núverandi lögum. Þar sem gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að ráðherra setji gjaldskrá um eftirlitið þykir eðlilegt að marka ramma þess fastari skorður í samræmi við þau ákvæði um eftirlit sem nú eru í reglugerð. Þó er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ráðherra hafi áfram ákveðnar heimildir til að kveða nánar á um framkvæmd eftirlitsins innan ramma laganna.

Í frumvarpinu er einnig tekið fram að framleiðandi þar sem greinst hefur smitefni þarf sjálfur að bera þann kostnað sem af viðbótarsýnatökum og prófunum hlýst, enda er það í anda þess að þeir sem þarfnast nánara eftirlit, e.t.v. vegna verri aðstöðu eða verra heilbrigðis hjarðar, borgi þann kostnað sjálfir. Þannig ætti það að vera framleiðendum til hagsbóta að hafa ástand búa þeirra með þeim hætti að ekki þurfi að koma til sérstakra prófana vegna smitefna. Til að taka af öll tvímæli um það að um viðbótarsýnatökur og prófanir sé að ræða og til að undirstrika þá ábyrgð sem viðkomandi framleiðandi verður að axla vegna bús síns er kveðið á um það í greininni að beiðni um viðbótarsýnatökur skuli vera skrifleg.

Í samræmi við efni frumvarpsins er gert ráð fyrir því að sérstakur sjóður í vörslu landbúnaðarráðherra verði lagður niður en gjöldin renni þess í stað beint til embættis yfirdýralæknis sem sinnir eftirlitinu til að standa straum af raunkostnaði við það.

Í frumvarpinu er einnig afdráttarlaust kveðið á um að möguleika landbúnaðarráðherra til að setja nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins. Ekki er um breytingu á núverandi lagaumhverfi að ræða því að í núgildandi 3. mgr. 11. gr. er að finna svipaða heimild til handa ráðherra. Nýmælið sem hér er á ferðinni felst í skýrara orðalagi um takmarkaða heimild ráðherra til að kveða nánar á um til hvaða þátta heilbrigðiseftirlitið tekur. Heimild ráðherra samkvæmt greininni er þó ávallt bundin við þá flokka eftirlits sem skilgreindir eru frumvarpinu. Landbúnaðarráðherra gæti því t.d. ekki upp á sitt einsdæmi og án lagasetningar kveðið á um nýtt eftirlit sem sláturleyfishöfum beri að greiða fyrir.

Hæstv. forseti. Þetta eru helstu atriði þessa frumvarps og ég legg til að að lokinni umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og landbúnaðarnefndar.