131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Útflutningur hrossa.

727. mál
[17:25]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 55/2002, um útflutning hrossa, á þingskjali 1085 sem er 727. mál þessa þings.

Hæstv. forseti. Sú breyting sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu á 1. gr. laga nr. 55/2002, um útflutning hrossa, felst í því að ákvæði um hámarksaldur hrossa sem leyfilegt er að flytja úr landi er fellt brott. Ákvæðið þykir ekki hafa neina þýðingu lengur í ljósi þess að ítarleg skoðun fer fram á öllum hrossum fyrir útflutning sem framkvæmd er af eftirlitsdýralækni. Líkamlegt ástand hross á að ráða því hvort það telst hæft til útflutnings en ekki aldur þess. Gert er ráð fyrir að það sé því alfarið á færi eiganda hrossins að ákveða hvort hann vilji flytja hrossið út þótt það sé eldra en 15 vetra ef það á annað borð uppfyllir önnur skilyrði sem lögin mæla fyrir um. Sú mismunun sem nú er í lögunum, þ.e. að heimilt sé að flytja úr landi merar sem eru eldri en 15 vetra en ekki geldinga, þykir heldur ekki standast nánari skoðun þar sem ákvæðið um hámarksaldur útflutningshrossa var í upphafi sett út frá dýraverndarsjónarmiðum, þar sem í upphafi var ekki talið réttlætanlegt að leggja langan flutning á gömul hross sjóleiðina til. Nú eru nær öll hross hins vegar flutt út flugleiðis, annað heyrir til algerra undantekninga. Þess vegna er þetta frumvarp lagt fram á þessu þingi.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og landbúnaðarnefndar.