131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Útflutningur hrossa.

727. mál
[17:35]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að verið er að fella út eitt lítið ákvæði um 15 vetra hámarksaldur hrossa sem flutt eru úr landi, að nú má sem sagt flytja út eldri.

Spurning mín til hæstv. ráðherra, fyrst hann er kominn í andsvar, er hvort ekki megi fella þessi lög úr gildi með tilvísun til þess að greinin setji sér sjálf gæðaeftirlit eins og aðrar greinar í útflutningi eða í framleiðslu yfirleitt og hvort megi ekki vísa til dýraverndarsjónarmiða varðandi þau atriði sem snúa að dýravernd.

Síðan er þarna eitt dálítið skrýtið atriði sem ég skil ekki, um kynbótahross, að tilkynna eigi Bændasamtökum Íslands það án tafar ef slíkt hross er flutt úr landi. Svo er ekki sagt neitt meira hvað Bændasamtökin eigi að gera með það, að vita að þetta ágæta hross á að fara úr landi. Ég skil ekki alveg til hvers er verið að tilkynna þetta. Þetta er skrýtið ákvæði.

Að öðru leyti eru lögin öll varðandi gæðaeftirlit eða dýravernd. Ég legg til að þau verði felld úr gildi.