131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[17:39]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir lifandi áhuga hans á því máli sem hér er flutt, en það er hvorki langt né mikið. Ég vildi nota þetta tækifæri til að spyrja ráðherrann um þau miklu tíðindi sem hafa orðið í mjólkuriðnaðinum og þær spurningar sem hafa vaknað um lagaumhverfi hans sem er til umfjöllunar í þessu frumvarpi.

Þau tíðindi hafa orðið að nýtt mjólkurbú hefur haslað sér völl, Mjólka, sem ætlar að standa utan niðurgreiðslukerfisins í mjólkuriðnaðinum. Einn af forustumönnum í mjólkuriðnaðinum, Þórólfur Sveinsson, hefur efast um þann lagagrundvöll sem þetta bú og framleiðsla þess standi á.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að við á hinu háa Alþingi þurfum í búnaðarlögum eða jafnvel í búvörulögunum að treysta lagagrundvöll fyrir framleiðslu utan niðurgreiðslukerfisins, eða hvort þetta nýja bú standi traustum lagalegum fótum og hvort hæstv. landbúnaðarráðherra fagni því ekki að nú séu að verða til í landinu frjálsar og óniðurgreiddar kýr, eða hvort hann hafi af því verulegar áhyggjur að þessi nýbreytni raski framleiðslustýringunni í mjólkuriðnaðinum.

Ég held að mjög mikilvægt sé að tekin séu af öll tvímæli um lagaumhverfi þessa nýja fyrirtækis, því að ég held að margir horfi vonaraugum til þessa frumkvæðis og þessarar nýsköpunar í mjólkuriðnaðinum og voni að þetta marki þáttaskil í þeirri búgrein og telji ákaflega mikilvægt að þetta nýja bú, Mjólka, standi traustum stoðum lagalega og þess vegna mikilvægt að hæstv. ráðherra tjái sig um það í sölum Alþingis.