131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[17:43]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna eindregið þeim ótvíræða stuðningi við þessa nýbreytni í mjólkuriðnaði og við frelsi í framleiðslu á mjólk og heimildum manna til að framleiða óniðurgreidda mjólk í landinu, sem hér hefur komið fram í yfirlýsingum hæstv. landbúnaðarráðherra. Ég treysti því að þekking hans og mat á stöðu þessa fyrirtækis sé með þeim hætti að ekki þurfi að hafa áhyggjur af því. Það er rétt hjá hæstv. landbúnaðarráðherra að atvinnufrelsi manna er þeim tryggt í stjórnarskránni.

Ég vil þá í framhaldinu fá að beina þeim fyrirspurnum til hæstv. landbúnaðarráðherra hvort hann telji ekki að með þessum tíðindum, þeim að menn treysta sér til að framleiða hér óniðurgreiddar mjólkurvörur og með þeim tíðindum sem við höfum verið að fá úr alþjóðlegum viðræðum um heimsviðskiptin, hvort við séum ekki að sjá þar fyrir endann á beinum framleiðslustyrkjum í landbúnaði og breytingu í annars konar styrkjakerfi til landbúnaðarins. Ástæðan fyrir því að ég spyr er sú að það verð sem er nú orðið til á mjólkurkvóta hér í landinu og er að ganga manna á milli, er auðvitað orðið með hreinum ólíkindum. Það er algerlega augljóst að á markaðnum eru menn bara að selja áskrift að ávísunum úr ríkissjóði. Verið er að kaupa þessa áskrift dýrum dómum.

Við höfum nýverið gert mjólkursamning til sjö ára en menn virðast meta það svo að þessar niðurgreiðslur muni ekki bara halda áfram í þau sjö ár, heldur nánast um alla eilífð.

Ég spyr þess vegna hæstv. landbúnaðarráðherra hvort hann telji ekki að þessi tíðindi hér heima og eins tíðindin á alþjóðavettvangi bendi til þess að að loknum þeim mjólkursamningi sem nú er í gildi megi vænta þess að verulega verði dregið úr framleiðslustyrkjum í mjólkuriðnaðinum og opinberum stuðningi beint í annan farveg til bænda.