131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[17:47]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að leggja spurningu fyrir hæstv. landbúnaðarráðherra sem er ekki ólík þeirri sem hv. þingmaður lagði fyrir hann áðan. Þessi lagabreyting gengur út á að fella niður gjaldtöku vegna mjólkur, allrar mjólkur sem er lögð inn í hvaða afurðastöð sem er, hvort sem það væri afurðastöð Mjólku eða önnur afurðastöð. Ég skil núgildandi lög þannig að það verði að greiða af allri mjólk, hvar svo sem hún er lögð inn og jafnvel þá hjá Mjólku.

Þetta var sett í lög vegna þess að þegar menn hófu sæðingarstarfsemi í landinu var þátttaka bænda ekki almenn. Margir hverjir notuðu svokölluð heimanaut, sem hæstv. landbúnaðarráðherra þekkir mjög vel. Menn notuðu heimanaut og þeir einstaklingar tóku þar af leiðandi ekki þátt í kostnaðinum við kynbótastarfið. Þess vegna var þetta gjald sett á, hygg ég, þannig að kostnaðinum yrði dreift á alla bændur, á alla nautgriparæktina og allir tækju þátt í kynbótastarfseminni sem skiptir landbúnaðinn gríðarlega miklu máli.

Nú vaknar sú spurningin hvort nýir aðilar, sem eru utan kerfisins, utan búvörusamninga þegar þetta gjald verður fellt niður, muni ekki taka þátt í að greiða fyrir það kynbótastarf sem nauðsynlegt er öllum, bæði bændum og neytendum í landinu.