131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[17:52]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við erum að hverfa frá ákveðnu kerfi sem hefur verið í gangi í landbúnaðinum. Hann er því miður bundinn í mjög þunga hlekki alls konar kerfa.

Í 12. gr. búnaðarlaga segir, með leyfi forseta:

„Búnaðarsamböndum eða öðrum félagasamtökum bænda sem viðurkennd eru af Bændasamtökum Íslands er heimilt að innheimta hjá mjólkurframleiðendum gjald af allri innveginni mjólk í afurðastöð vegna sæðinga mjólkurkúa. Gjaldið skal nema 1,7% af afurðastöðvarverði mjólkur eins og það er á hverjum tíma. Afurðastöðvum er skylt að halda gjaldi þessu eftir af mjólkurverðinu og standa búnaðarsamböndunum skil á því mánaðarlega.“

Þetta þýðir að bændur skulu kaupa sæðingar af ákveðnum búnaðarsamböndum hvort sem þeir vilja eða ekki. (KÓ: Nei, nei.) Jú, það stendur hérna. Og þeir geta ekki haldið eigin naut. (DrH: Jú, jú.) Ja, þeir borga samt, eru búnir að borga með gjaldinu fyrir sæðinguna. Ef þeir halda eigin naut eða fá lánað naut hjá nágranna sínum þá nýta þeir ekki þjónustu sem þeir eru búnir að borga fyrir. Þetta er náttúrlega mjög óeðlilegt og kemur í veg fyrir samkeppni, t.d. í sæðingum. Ég er því hlynntur því að fella þetta niður og það er hið besta mál.

Hins vegar er í frumvarpinu dálítil mótsögn, þ.e. á milli þess sem segir í athugasemdum við lagafrumvarpið og þess sem fram kemur í umsögn fjármálaráðuneytisins. Í athugasemdum segir að það eigi að fella niður gjaldið. Síðan segir, með leyfi forseta :

„Þá er jafnframt talið eðlilegt að þeir sem nýta sér þjónustu búnaðarsambanda greiði í auknum mæli beint fyrir veitta þjónustu.“

Þetta er náttúrlega eðlilegt og sjálfsagt. Þeir geta að sjálfsögðu greitt einhverjum öðrum en búnaðarsamböndunum fyrir þetta. Þá getur einhver bóndinn sérhæft sig í því að halda naut til að stunda sæðingar. Það er hið besta mál, þá kemur samkeppnin upp og væntanlega lækkar verðið eins og alltaf í samkeppni. Rekstur sem ekki býr við samkeppni verður alltaf óhagkvæmur, það hefur sýnt sig.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins segir hins vegar að þetta gjald hafi gefið 80 millj. kr. árið 2004. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að veitt verði 100 millj. kr. framlag í fjárlögum árið 2006 til kynbótaverkefna samkvæmt samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu sem tekur gildi frá og með 1. september 2005.“

Það er sem sagt búið að skuldbinda Alþingi í fjárveitingum árið 2006 upp á 100 millj. kr. En það er reyndar til kynbótaverkefna, sem er ekki endilega það sama og sæðingar. Ég held því að ég geti stutt þetta engu að síður, þrátt fyrir þessa athugasemd. Ég vil að bændur geti annaðhvort haldið sín eigin naut og fengið lánað naut hjá nágranna eða keypt sæðingu hjá aðilum sem eru í samkeppni hver við annan. Þannig myndast sæðingarstöðvar sem geta keppt við búnaðarsamböndin, sem ég er nærri viss um að gera þetta ekki á ódýrasta máta. Þannig er það yfirleitt þegar menn búa við einokun. Þannig hefur það verið hingað til. Þau hafa fengið tekjurnar og ekki þurft að standa í samkeppni. Bændur hafa neyðst til að kaupa af þeim þjónustuna vegna þess að þeir eru búnir að borga fyrir hana.

Ég styð því þessa breytingu með þessum athugasemdum.