131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[17:56]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Með frumvarpi þessu hverfum við frá ákveðnu fyrirkomulagi, með því að fella niður þetta gjald, 1,7% af afurðastöðvarverði mjólkur, þannig að nú greiði menn meira fyrir hverja sæðingu. Í staðinn munu renna úr ríkissjóði 100 millj. kr. í kynbóta- og þróunarverkefni sem eru af ýmsum toga og skipta mjólkurbændur mjög miklu máli.

Ég held að það sé ákveðinn misskilningur hjá hv. þm. Pétri Blöndal varðandi samkeppni í sæðingum og það að bændur geti ekki haldið sín eigin naut. Þeir geta það og hafa gert það margir hverjir þótt þeir hafi greitt þetta gjald. Það er kannski í og með þess vegna sem fella á gjaldið niður.

Ég held að það væri mjög erfitt að koma á samkeppni í sæðingarstöðvum. Þetta eru ekki svo margar kýr, fyrir það fyrsta, og síðan þarf að bjóða upp á sæði úr mörgum valinkunnum nautum. Ef hv. þingmaður ætlaði að fara í samkeppni þá þyrfti hann að halda úti kynbótastöð með mörgum nautum. Ég tel að þarna gæti ákveðins misskilnings hjá hv. þingmanni.

Ég held að með frumvarpi þessu sé komið til móts við bændur í framhaldi af því sem við höfum verið að gera, þ.e. að lækka álögur á bændur þar sem þeir greiða beint af rekstri sínum. Í staðinn vilja þeir borga fyrir þá þjónustu sem þeir fá en ekki leggja fé í ótilgreinda sjóði. Þess vegna stendur til að breyta búnaðarsjóðsgjaldinu og lækka það. Vonandi verður meira gert af því.