131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[18:08]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er töluverður munur á því að standa utan við Kerfið, með stórum staf, eða standa utan við greiðslumarkið og það eru bændur í landinu sem eiga ekki greiðslumark en munu fá stuðning vegna breytinganna sem urðu. Ég sé ekki hvers vegna ætti að undanskilja þá bændur sem þar eru. Ég sé ekki annað en þeir hafi jafna stöðu við þá bændur sem ekki hafa greiðslumark. Mér finnst skrýtið ef þeir hafa neitað sér um að þiggja stuðninginn þó hann sé ekki mjög mikill. Þeir hafa auðvitað fullan rétt til þess, en það sem ég hlustaði a.m.k. á gekk út á að þeir ætluðu að standa utan við greiðslumarkið. Það þýðir ekki að þeir séu utan við kerfið. (Gripið fram í.) Hafi þeir sagt það finnst mér það undarlegt og endurtek það.

Varðandi Evrópusambandið er eins og mig minni að hæstv. forsætisráðherra hafi nefnt það nokkrum sinnum að honum finnist ástæða til að skoða vandlega hvort ganga eigi í Evrópusambandið. Hæstv. forsætisráðherra er formaður í flokki hæstv. landbúnaðarráðherra. Ég held því að hæstv. landbúnaðarráðherra ætti að spara sér háðið gagnvart þeim sem hafa áhuga á að skoða inngöngu í Evrópusambandið. Ég er ekki einn af þeim sem hafa verið áhugasamastir um það, en ætli ekki megi telja hæstv. forsætisráðherra a.m.k. með í þeim hóp sem hafa sýnt áhuga.