131. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2005.

Búnaðarlög.

725. mál
[18:20]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt er nú að vilja styðja landbúnaðinn. Annað er að vilja skrifa upp á stuðningsfyrirkomulagið eins og það hefur verið og er. Ég hef alltaf sagt að ég er tilbúinn að standa að því að styðja landbúnaðinn eins og mögulegt er út úr því fyrirkomulagi sem hann er í.

Ég tel hins vegar mjög ólíklegt að menn geti haldið áfram á þessari braut miklu lengur. Það verður að breyta þessum stuðningi. Ég tel að skýrsla Hagfræðistofnunar háskólans sem kom fram sé prýðilegt innlegg í þá umræðu sem þarf að fara fram og hún hefði þurft að fara fram fyrir langalöngu. Hún verður að fara fram núna á næstu missirum til þess að menn komist inn á annað spor með þennan stuðning í einhverja jafnræðisátt hvað varðar atvinnulíf í sveitum. Það að styðja nánast eingöngu tvær búgreinar í þessu landi hefur aldrei verið upp á bjóðandi. (Landbrh: Lestu Hagfræðistofnunarskýrsluna ...) Ég held því fram að út úr þessu megi komast og ekki bara megi heldur verði menn að komast. Það getur verið ýmislegt í þessari skýrslu. Ég er ekki farinn að sjá hana enn þá. Ég hef bara heyrt frásagnir af henni þar sem aðalatriðin komu fram vonandi. Hún getur verið grunnur að þessari umræðu, eins og ég sagði, og sú umræða sem hefur farið fram á undanförnum árum og þeir samningar sem menn eru í raun búnir að fikra sig að því að taka þátt í að gera á alþjóðavísu hafa líka allir bent í sömu áttina, að það verði að fara þá leið sem Hagfræðistofnun bendir á.