131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[14:46]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Skýrsla nefndar menntamálaráðherra um íslenska fjölmiðla sem var gerð opinber á fimmtudag og var kynnt fyrir Alþingi áðan af hæstv. menntamálaráðherra hlýtur að teljast sögulegt plagg. Hún er að mínu mati ákaflega merkilegt plagg sem á eftir að marka tímamót. Þetta segi ég þó að ég sé einn af þeim sem áttu sæti í þessari nefnd. Mér finnst þessi skýrsla góð og ég hika ekkert við að segja það. Ég er stoltur yfir því að hafa tekið þátt í þessu starfi. Þetta er búið að vera gott starf og lærdómsríkt, þetta starf er búið að færa mér heim sanninn um það að við getum unnið saman, við getum náð lendingu í erfiðum þjóðfélagsmálum þó að við komum kannski úr ólíkum áttum og þó að við tilheyrum ólíkum stjórnmálaflokkum. Þessi skýrsla er sigur fyrir lýðræðið í landinu. Hún er líka sigur fyrir þingræðið, fyrir vilja Alþingis.

Virðulegi forseti. Af hverju segi ég þetta? Jú, þetta segi ég vegna þess að mig langar til að nota tækifærið núna til að rifja aðeins upp þá staðreynd að í nóvember árið 2003 var lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi, þingsályktunartillaga fjögurra flokka, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Frjálslynda flokksins, og hún hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka sem fái það verkefni að kanna starfsskilyrði fjölmiðla, hræringar á fjölmiðlamarkaði og hvert stefnir og huga að því hvort þörf sé lagasetningar eða aðgerða til að treysta stöðu sjálfstæðs og fjölbreytts fjölmiðlareksturs hér á landi.“

Þannig hljóðaði þessi þingsályktunartillaga. Um svipað leyti kom Samfylkingin fram með eigin þingsályktunartillögu. Samfylkingin var sem sagt ekki með á þessari þingsályktunartillögu en kom með sína eigin sem gekk út á það að réttlætis væri gætt í málflutningi, það væri virkt gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Þarna var sem sagt fyrir jól árið 2003 eindreginn vilji fyrir hendi í þinginu til að fara í þá vinnu sem við höfum núna verið að inna af hendi, fara í þessi mál og skoða þau. Ég hygg, með fullri virðingu sagt, að ef menn hefðu aðeins slakað á á þessum tímapunkti, dregið andann og farið í þessi mál eins og búið var að teikna þau hefði þessi skýrsla legið fyrir á hinu háa Alþingi fyrir ári.

Það tók ekkert mjög marga mánuði þegar við fórum loks í þessa vinnu, allir flokkar, að ná lendingu í málinu. Þessi lending liggur núna fyrir í þessari 200 síðna skýrslu. Við byrjuðum að vinna í nóvember. Nú er kominn apríl og niðurstaðan liggur fyrir. Þetta er skýrsla, við skulum hafa það hugfast, og í henni eru tillögur. Þetta er ekki lagafrumvarp. Það á eftir að semja það. Umræðan undanfarna daga hefur að verulegu leyti verið nokkuð athygliverð en mér finnst hafa gætt misskilnings meðal þjóðarinnar, a.m.k. hjá sumum. Fólk hefur viljað túlka þessa skýrslu og tillögurnar í henni sem frumvarp en svo er ekki. Núna eigum við eftir að taka umræðuna um þessi mál og ég er alveg sannfærður um að hún á eftir að verða góð og málefnaleg. Síðan getum við þá væntanlega reiknað með frumvarpi um hvernig við viljum haga framtíðarskipan íslenskra fjölmiðla. Við getum reiknað með frumvarpi næsta haust.

Ég vil líka nota tækifærið hér og nú til að lýsa því yfir að ég tel að það væri rétt að það frumvarp sem hæstv. menntamálaráðherra ætlar að mæla fyrir á eftir, um framtíðarskipan Ríkisútvarpsins, fari í 1. umr. og síðan í menntamálanefnd og fái umsagnir. Á sama tíma verði líka leitað eftir umsögnum um önnur þingmál er varða Ríkisútvarpið og við notum sumarið einnig til að taka umræðu um framtíð Ríkisútvarpsins, leggjum síðan fram nýtt frumvarp um það næsta haust og afgreiðum þessi mál samhliða þannig að þjóðarsátt náist um þessi mál til frambúðar næsta vetur. Vinnum þetta sameiginlega, stígum þessi skref saman, göngum í takt. Við getum alveg náð sameiginlegri lendingu, Alþingi í heild sinni um þessi mál, og við eigum að gera það. Okkur ber sú skylda að gera það.

Það tapa allir á ástandinu eins og það er. Það hefur verið sannfæring mín alveg frá upphafi, frá því að ég hóf störf í þessari nefnd, að allir töpuðu á ástandinu eins og það var þar sem fyrir hendi væri enginn rammi, engin lagaumgjörð fyrir íslenska fjölmiðla. Eigendur fjölmiðlanna, fjölmiðlafyrirtækin, tapa á þessu og neytendur líka. Við höfum í okkar starfi reynt að taka tillit til beggja hópa eða réttara sagt allra hagsmunahópa. Við höfum fengið ótal marga á fund til okkar í nefndinni, hlustað á ótal mörg sjónarmið og síðan reyndum við að draga upp það kort sem liggur hér fyrir og taka tillit til sem flestra. Að sjálfsögðu hafa alltaf einhverjir athugasemdir við það sem við höfum lagt fram, að sjálfsögðu er það þannig. En þá tökum við líka umræðu um það. Þá tökum við lýðræðislega og opna umræðu um þau álitamál og finnum sameiginlega lausn.

Um helgina hefur mikið verið rætt um ákvæðin varðandi eignaraðild. Ég tel að þau séu mjög hófleg. Ég tel ekki að þau muni skaða fjölmiðlafyrirtækin til frambúðar. Við verðum að hafa það hugfast að Ísland er lítið land og þetta er mjög lítill markaður. Við erum að tala um þriðjungsútbreiðslu eða markaðshlutdeild og að þá megi einn aðili ekki eiga meira en 25%. Mjög fáir fjölmiðlar falla undir þetta. Það eru mjög fáir fjölmiðlar sem munu falla undir þetta í framtíðinni. Við skulum athuga að fjölbreytni í fjölmiðlun er alltaf að aukast. Það verða fáir fjölmiðlar í framtíðinni sem munu hafa yfir 33% útbreiðslu. Þeir verða mjög fáir, einfaldlega vegna þess að fjölbreytnin verður svo mikil. Við erum að stíga inn í nýja framtíð sem er fjallað um í þessari skýrslu og ég hvet alla til að lesa gaumgæfilega kafla 4. Þar erum við að horfa inn í framtíðina, þar erum við að velta því fyrir okkur hvernig umhverfið verður og við erum að fara inn í nýjan heim á næstu árum, algera byltingu, ævintýraheim hvað varðar fjölmiðlun.

Það er það sem við eigum að horfa á og þar koma kannski stærstu fréttirnar inn í þessari skýrslu, fréttirnar sem ég hef saknað mjög mikið í umræðunni fram til þessa um skýrsluna, þ.e. tillögur nefndarinnar varðandi dreifingu fjölmiðlaefnis, varðandi það að dreififyrirtækin geti fengið aðgang að efni og líka að fyrirtækin sem eru að selja efni geti fengið aðgang að dreifileiðunum. Í framtíðinni þegar menn munu líta um öxl, skoða þessa skýrslu og skoða störf þessarar nefndar munu menn fallast á það að þetta hafði langstærsta sögulega þýðingu í starfi nefndarinnar. Tillögurnar varðandi dreifinguna á fjölmiðlaefninu finnast mér vera langstærstu fréttirnar og það eru þær fréttir, sú niðurstaða sem á eftir að hafa mest áhrif til framtíðar. Þær tillögur sem þar koma fram af hálfu nefndarinnar eru mjög góðar. Þær eru teknar af (Forseti hringir.) framtíðarsýn og eiga eftir að skila miklu.