131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[15:43]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið ágætar umræður um skýrsluna og fer brátt að ljúka. Það er allt annar tónn í þessum umræðum núna en var hér fyrir ári síðan þegar fyrri skýrslan var kynnt í þinginu. Ég var að skemmta mér við það í morgun að lesa yfir gamlar ræður, einmitt ársgamlar ræður, næstum upp á dag, og þetta er allt annar og miklu betri tónn en þá var. Þá var allt hér kolfast í hávaðarifrildi, allir mælar loguðu á rauðu og það stefndi í þau geysilega hörðu átök sem síðan urðu raunin eins og við munum öll eftir.

Mig langar aðeins að koma að örfáum athugasemdum. Mér fannst hv. þm. Birgir Ármannsson alhæfa um of þegar hann fullyrti að menn hefðu ekki viljað skoða þessi ákvæði varðandi eignarhald hér fyrir ári. Það er alls ekki rétt. Ég rifjaði upp áðan þingsályktunartillögu sem var lögð fram hér og mælt fyrir í nóvember árið 2003. Eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, var ég að skoða gamlar ræður, m.a. mínar eigin og þar kom ég margoft inn á það og lýsti því yfir að Frjálslyndi flokkurinn hefði ekkert á móti því að skoða þessi mál vandlega, taka þann tíma sem þyrfti í að gera þetta í samvinnu við aðra flokka. Ég sagði að eignarhaldið væri meðal þeirra hluta sem við yrðum að taka til gaumgæfilegrar athugunar. Það var fyrst og fremst verklagið, vinnuaðferðirnar sem voru viðhafðar hér í fyrra, sem okkur þótti óásættanlegt og líka sú fljótaskrift að ætla að fara að setja lög um svo mikilvægan þátt eins og starfsumhverfi fjölmiðla á Íslandi nánast með handafli eða á hnefanum, á örfáum vikum á vordögum. Það þótti okkur gersamlega óásættanlegt og því stóðum við í hörðu andófi gegn þeirri lagasetningu.

Mig langaði rétt í lokin til að tæpa örlítið á nokkrum af þeim tillögum sem eru skilgreindar hér í skýrslunni. Ég sé þó að tíminn líður afskaplega hratt, klukkan telur niður og mér mun ekki gefast tími til þess í þessari umferð. Rétt í lokin ítreka ég aftur þá ósk mína að núna muni fara fram gaumgæfilegar umræður um efni þessarar skýrslu, um þessi mál í fjölmiðlum, meðal þjóðarinnar, að við tökum þann tíma sem þarf til þess og að þar komi menn með málefnaleg rök og mótrök að sjálfsögðu, eins og gengur, og að við sjáum þá næsta haust vandað lagafrumvarp sem mun síðan fá þá vönduðu þinglegu meðferð sem hæfir svo vel þessu mikilvæga máli.

Ég vil enn og aftur líka ítreka ósk mína um að sömu vinnubrögð verði viðhöfð varðandi fyrirhugað frumvarp um Ríkisútvarp sem við munum ræða hér á eftir og enn fremur koma á framfæri þeirri einlægu ósk minni að þar náist líka ásættanleg lending og sátt. Ríkisútvarpið skiptir mjög miklu máli fyrir íslenskt þjóðfélag sem og aðrir fjölmiðlar hér á landi og það er gríðarlega mikilvægt að við náum sátt um þessi mál til frambúðar. Þetta varðar hagsmuni þjóðarinnar til frambúðar. Hér verður einfaldlega að nást sátt.