131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar, munnleg skýrsla menntamálaráðherra.

[15:47]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þingmönnum öllum fyrir þá ágætu og góðu umræðu sem hér hefur átt sér stað í dag um skýrslu fjölmiðlanefndarinnar. Sérstaklega í ljósi þeirra miklu og hörðu deilna sem urðu á síðasta ári tel ég tvímælalaust standa upp úr mikilvægi þess að á milli allra stjórnmálaflokkanna hafi náðst þessi pólitíska sátt um að tryggja fjölbreytni og fjölræði á þeim mikilvæga markaði sem við nefnum fjölmiðlamarkað hverju sinni.

Ég hef talið mikilvægt að koma eins og unnt var til móts við kröfur nefndarmanna sem þeir settu fram svona af og til og hverju sinni og beindu tilmælum til ráðherra. Má kannski rifja upp að í byrjun nefndarstarfsins kom stjórnarandstaðan að máli við mig og sagði að það væri ekki nóg að hafa tvo fulltrúa og að sjálfsögðu varð ég við tilmælum þeirra og fjölgaði í nefndinni. Ég taldi það rétt ef það væri til þess fallið að ná þessari mikilvægu pólitísku sátt. Síðan var beðið um aukinn tíma og það var líka komið til móts við það og síðan í þriðja lagi er rétt að draga það fram að ég frestaði m.a. umræðunni um Ríkisútvarpið á þeirri forsendu að menn vildu ræða málin saman. Ég hef samþykkt alla þessa hluti til þess að ná því markmiði sem við nefnum síðan pólitíska sátt. Sú pólitíska sátt innan fjölmiðlanefndarinnar grundvallast á þeim sameiginlega skilningi nefndarmanna að fjölmiðlar gegni mikilvægu og sérstæðu hlutverki í lýðræðissamfélagi, á þeim skilningi að skyldur fjölmiðla við almenning séu ríkari og víðtækari en skyldur annarra fyrirtækja og því sé eðlilegt að um fjölmiðlana gildi sérstök viðmið og sérstakar reglur. Þessi pólitíska sátt tekur mið af því að best sé að setja slík viðmið fram í ákveðnum reglum um fjölmiðla, þar með talið reglum um eignarhald sem þó næðu aðeins til miðla sem eru í mikilli útbreiðslu og hafa því sannarlega ákveðið dagskrárvald í samfélaginu. Með þessum reglum verður því tryggt að smærri miðlar geti eflst og nauðsynleg nýliðun átt sér stað.

Þessi pólitíska sátt tekur einnig til gagnsæis á eignarhaldi, reglna um leyfisveitingar, að ólíkar dreifiveitur fái aðgang að ólíku efni og sé skylt að dreifa frá ólíkum efnisveitum, að mótaðar verði reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Þetta fór ég allt yfir í minni fyrri ræðu í dag.

Ég fagna því sérstaklega hversu mikla áherslu nefndin hefur lagt á að nálgast málefni fjölmiðla út frá sjónarmiðum neytandans með það fyrir augum að sú fjölbreytni sem neytandanum stendur til boða sé ekki minnkuð eða aðþrengd. Það skiptir að mínu mati miklu máli að við tökum mið af þeirri sátt sem náðist innan fjölmiðlanefndarinnar og ég legg áherslu á að um þessar tillögur eigi sér stað góð og ítarleg umræða og vona að sem flestir muni taka þátt í henni á opinberum vettvangi.

Fjölmiðlanefndin leggur áherslu á að líta beri á tillögur hennar til lagasetningar sem eina heild og er því mikil vinna fyrir höndum við að fara yfir þær tillögur sem nú liggja fyrir og meta hvernig þeim verður best breytt í frumvarpsform. Stefni ég að því að þeirri vinnu verði lokið næsta haust og þá verði hægt að leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga sem byggja á tillögum fjölmiðlanefndarinnar.

Ég vil fyrir mitt leyti leggja áherslu á að sú sáttagjörð sem nú liggur fyrir er söguleg, ekki einungis í ljósi átaka síðasta árs heldur einnig vegna þess hversu mikla framsýni nefndarmenn hafa sýnt á mörgum sviðum. Nefni ég sem dæmi, eins og fleiri þingmenn hafa gert hér í dag, tillögur nefndarinnar um flutningsskyldu og flutningsrétt sem taka mið af smæð og sérstöðu íslensks fjölmiðlamarkaðar í því skyni að tryggja jafnt hagsmuni fjölmiðlafyrirtækjanna sem neytenda.

Það er von mín, hæstv. forseti, að tillögur nefndarinnar geti orðið til þess að breið sátt ríki um málefni fjölmiðla og það hvernig fjölmiðlaumhverfi eigi síðan eftir að þróast hér í framtíðinni. Það skiptir miklu máli fyrir okkar litla, góða og íslenska samfélag að svo megi verða og ekki síst ber ég þá von í brjósti og ítreka það sem ég sagði áðan að hagsmunaaðilar á fjölmiðlamarkaði axli einnig ábyrgð og muni nú taka höndum saman við stjórnvöld við að treysta það starfsumhverfi fjölmiðla til frambúðar með markmiðin um fjölbreytni og fjölræði að leiðarljósi.