131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[15:52]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur mikið verið rætt um vinnulag og þátt sem skapast hafi vegna vinnubragða, vegna þess að menn gefa sér tíma, vegna þess að menn leyfa öllum sjónarmiðum að komast að. Þetta er til fyrirmyndar og hafa allir tekið undir það hér í umræðunni um fjölmiðlaskýrsluna hve ákjósanlegt þetta hafi verið á alla lund.

Það er hins vegar ljóst að eitt stendur í mönnum, óvissan um framtíð Ríkisútvarpsins. Um það frumvarp sem ríkisstjórnin hefur sett fram er engin sátt, það er alveg augljóst mál. Allir þingflokkar hafa lagt fram þingmál er varða Ríkisútvarpið og framtíð þess. Við óskuðum eftir því að öll þessi mál yrðu nú send til menntamálanefndar og þaðan út í samfélagið til umsagnar. Nú bregður svo við að á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir stundu var þessari beiðni hafnað, og ég spyr: Hvers konar vinnubrögð er nú verið að boða? Vilja menn virkilega hverfa til fyrri tíma? Á að endurvekja hér umræðuna sem fram fór sl. vor? Hvað veldur því að ríkisstjórnin ætlar að koma í veg fyrir að þau sjónarmið sem við höfum fram að færa í stjórnarandstöðunni nái út í þjóðfélagið og fái þar umsögn? Er hér verið að boða ný vinnubrögð? Ég held að menn hefðu farið varlegar í að lýsa stuðningi við það skref sem stigið er með fjölmiðlaskýrslunni ef þeir hefðu vitað hvað í vændum var að þessu leyti.

Ég mótmæli þessum vinnubrögðum. Hvað er það sem ríkisstjórnin óttast svo í frumvarpi sínu að hún þori ekki að láta aðrar tillögur sem fram hafa komið sjá dagsins ljós?