131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Um fundarstjórn.

[15:57]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það kemur óneitanlega á óvart að hér séu teknar ákvarðanir um stjórn þingsins á þingflokksfundi sjálfstæðismanna og að hér skuli koma upp hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir til að skýra það út fyrir þingheimi hvernig standi á ákvörðunum sem teknar hafa verið hér um þingstörfin. Ég hélt nú í sakleysi mínu að forseti Alþingis væri sjálfstæður og tæki ákvarðanir sínar óháð því hvernig meiri hlutinn liggur í þingflokksherbergi Sjálfstæðisflokksins. Ég hélt að það væri sérstök nefnd í gangi hér í þinginu, en það er kannski misskilningur, forseti, að hér í þinginu sé sérstök nefnd, forsætisnefnd, og síðan auðvitað samkoma þingflokksformanna til að ræða það hvernig skuli fara með svona mál.

Mér finnst líka sérkennileg röksemdafærsla hjá hv. starfandi formanni þingflokks sjálfstæðismanna að það komi málinu við að tillaga sem hér liggur fyrir frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sé breytingartillaga við allt önnur lög en hér séu að verki. Ég verð að segja að ansi gerast menn nú formlegir í þessu máli. Þetta er kannski svona í kjördæmi þingmannsins hv. en ég hef aldrei heyrt að það sé ekki hægt að ræða mál efnislega þó að þau séu ekki nákvæmlega samhljóða að forminu til.

Sú tillaga sem við höfum sett hér fram um Ríkisútvarpið og ég tel þá merkustu af þessum þremur, og jafnvel þó að ég bæti nú hinni fjórðu við, sem er komin til menntamálanefndar og er ágæt tillaga, frá Frjálslynda flokknum, er í formi þingsályktunartillögu. Það er sem sé af þeim ástæðum ekki hægt að ræða hana. (Gripið fram í.) Þó kom sú tillaga fram í desember, er mál nr. 400 ef menn vilja fletta því upp og er á undan frumvarpi menntamálaráðherra hæstv., sem kom fram 15. mars. Tveim dögum síðar, 17. mars, kom fram tillaga vinstri grænna.

Ég vil bara spyrja menntamálaráðherra sem ætlar að fara að mæla hér fyrir þessu máli sínu hvort henni sé ekki leiðindalaust að þetta verði eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson leggur til, að þessar tillögur tvær fari til menntamálanefndar þannig að þær geti orðið samferða í umsögn. Mér sýnist allt stefna í það að Ríkisútvarpið verði hér í umræðunni — og vona að menntamálaráðherra taki undir það — í þessari fjölmiðlaumræðu sem hlýtur að standa fram á haustið og jafnvel lengur, og þetta verði ekki samþykkt hér í vor. Mér heyrist á menntamálaráðherra að það sé ekki endilega ætlunin, hún ætli a.m.k. að láta þingið stjórna því samkvæmt viðtölum í fjölmiðlum.

Ég vil bara spyrja kurteislega hvort menntamálaráðherra sé ekki sama um að þetta verði gert eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson vill. Við látum oft eftir Ögmundi Jónassyni þegar hann vill eitthvað, jafnvel þó að við efumst um að það sé rétt, við í Samfylkingunni.