131. löggjafarþing — 107. fundur,  11. apr. 2005.

Ríkisútvarpið sf.

643. mál
[16:49]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á afskaplega erfitt með að fá botn í þessa röksemdafærslu. Það er alveg rétt að það var óskað eftir því að þessi mál yrðu rædd samhliða en það sem við erum að fara fram á og óska eftir er að aðrir valkostir, aðrar hugmyndir, aðrar tillögur sem fram hafa komið um framtíð Ríkisútvarpsins fái einnig umræðu og verði skotið út í þjóðfélagið til umsagnar. Um það snýst þetta mál. Við erum að sjálfsögðu ekki að tala um að þær hugmyndir fari í gegn umræðulaust. Við erum að tefla fram okkar hugmyndum, okkar lausnum, okkar tillögum og munum að sjálfsögðu tala fyrir þeim í þessari umræðu.

Deilan snýst um það eitt hvort málið eigi að fara til umsagnar úti í þjóðfélaginu. Að sjálfsögðu munum við ræða þetta hérna.

Það er talað um fyrirmyndir að einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Við höfum þær. Þær hafa leitt til skerðingar á réttindum starfsmanna. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað með nýja starfsmenn Ríkisútvarpsins? Verður þeim heimilaður aðgangur að Lífeyrissjóði (Forseti hringir.) starfsmanna ríkisins eða verður þeim meinaður slíkur aðgangur eins og gerðist (Forseti hringir.) með starfsmenn Pósts og síma?

(Forseti (SP): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)